fbpx
Laugardagur 15.febrúar 2025
Fréttir

Sláandi frásögn föður frá Seltjarnarnesi – Stúlkur notuðu tusku og þurrsjampó til að komast í vímu

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 14. febrúar 2025 21:13

Atvikið átti sér stað á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Grétar Hermannsson greinir frá því í færslu á samfélagsmiðlum að hann og sonur hans á grunnskólaaldri hafi orðið vitni að því fyrr í dag á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi að þrjár unglingsstúlkur hafi notað brúsa með þurrsjampói og tusku til að komast í vímu.

Sigmundur veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna en frásögn hans er vægast sagt sláandi.

Sigmundur segir að stúlkurnar hafi komið sér í vímu með því að setja tuskuna fyrir vitin og sprauta úr brúsanum í tuskuna en hafa ber í huga að þurrsjampó er yfirleitt á úðabrúsum. Hann hafi sjálfur ekki séð stúlkurnar gera þetta en sonur hans hafi séð það. Hann minnir á að í þurrsjampói er oft efnið ísóbútan, sem einnig er kallað bútan, en andi maður því að sér í nógu miklu magni getur það valdið súrefnisskorti með tilheyrandi yfirliði og hættu á áverkum, hjartsláttartruflunum og jafnvel hjartastoppi, tauga- og heilaskemmdum og eldhættu en efnið er eldfimt. Það er einkum þetta efni sem gerir það mögulegt að nota þurrsjampó í þeim tilgangi að komast í vímu.

Sigmundur segir stúlkurnar hafa virst vera um 14-15 ára gamlar og hafi án efa lært tiltækið af myndböndum á samfélagsmiðlum. Hann segist vera bæði reiður og miður sín.

Allt niður í 7. bekk

Sigmundur segist hafa spurnir af því að börn allt niður í nemendur í 7. bekk grunnskóla séu að stunda innöndun á rokgjörnum efnum en það eru efni sem hafa háan gufuþrýsting við stofuhita og þarf því minna til að þau gufi upp.

Á ensku kallist þetta athæfi huffing eða chroming og auðvelt sé að finna myndbönd á netinu þar sem kennt sé hvernig eigi að bera sig að við þetta. Sigmundur segir að eftir samtöl sín við aðra foreldra og starfsmenn félagsmiðstöðva sé honum ljóst að fjöldi foreldra hafi enga yfirsýn yfir það hvað börnin þeirra séu að skoða í snjallsímum sínum.

Hann hafi útskýrt athæfi stúlknanna fyrir syni sínum og þeir feðgar hafi séð að þær hafi greinilega verið undir áhrifum, hafi flissað og skriðið um gólfin á Eiðistorgi og tekið á meðan upp myndbönd á síma sína.

Sigmundur segist áður hafa heyrt að ungmenni væru að viðhafa slíkt athæfi til að komast í vímu en það hafi verið sláandi að sjá það með eigin augum að sögurnar væru sannar.

Myndbönd

Sigmundur segist ekki hafa verið lengi að finna myndband á netinu af manni sýna hvernig eigi að komast í vímu með því að nota úðabrúsa með ísóbútan.

Hann bendir á í færslunni hvar myndbandið er að finna en sé það skoðað sést vel að það er öllum opið og hefur verið í birtingu í þrjú ár.

Sigmundur hvetur foreldra til að ræða við börnin sín um þessi mál og fylgjast með hvort úðabrúsar hverfi af heimilinu. Sé það raunin sé voðinn vís og það geti leitt til frekari neyslu á öðrum vímuefnum sem auðvelt sé að verða sér út um með hjálp snjalltækja.

Hann hvetur foreldra eindregið til að grípa strax í taumana ef þeir séu ekki fyllilega meðvitaðir um hvað börn þeirra séu að gera á netinu. Börnunum verði að setja mörk og nauðsynlegt sé að ræða við þau um notkun á snjallsímum og vímuefnum:

„Þetta er fyrst og fremst vandamál sem þarf að tækla af foreldrum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reykjanesbær í lausafjárvanda

Reykjanesbær í lausafjárvanda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur varar Hafnfirðinga við: „Hvaða um­hverf­issinna dett­ur í hug að dæla snefilefnum sem eru ekk­ert annað en eit­ur und­ir íbúðarbyggð?“

Guðmundur varar Hafnfirðinga við: „Hvaða um­hverf­issinna dett­ur í hug að dæla snefilefnum sem eru ekk­ert annað en eit­ur und­ir íbúðarbyggð?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samúel, Elías og Jónas dæmdir í fangelsi fyrir stórfellt fíknefnabrot

Samúel, Elías og Jónas dæmdir í fangelsi fyrir stórfellt fíknefnabrot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hugmynd Runólfs með Græna gímaldið vekur sterk viðbrögð – „Þetta er dónalegt Reykjavík þarf að fjarlægja mistökin sem gerð voru“

Hugmynd Runólfs með Græna gímaldið vekur sterk viðbrögð – „Þetta er dónalegt Reykjavík þarf að fjarlægja mistökin sem gerð voru“