Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur ákveðið veiðiheimildir til hreindýraveiða, gjaldskrá veiðileyfa fyrir árið 2025 og skiptingu þeirra á milli sveitarfélaga. Alls verður heimilt að veiða 665 hreindýr á veiðitímanum, 265 kýr og 400 tarfa. Þetta er 134 hreindýrum færra en á síðasta ári sem má fyrst og fremst rekja til áframhaldandi fækkunar í stofninum. Ekki er vitað af hverju fækkunin stafar en meðal annars hefur verið nefnt mögulegt aukið veiðiálag fyrri ára vegna ofmats á stofnstærð. Gjald fyrir úthlutun hreindýraveiðileyfis hefur hækkað um 20% og er nú 231.600 kr. fyrir tarf og 132.000 kr. fyrir kú.
Vísir greindi frá verðhækkuninni í gær og vakti fréttin hörð viðbrögð í athugasemdum á Facebook. Þar skiptust netverjar í fylkingar og sögðu meðal annars:
Eftir að tilkynnt var um hækkunina lifnaði yfir hópi skotveiðimanna á Facebook, en þar voru skoðanir skiptar.
Nokkrir voru hundfúlir.
Aðrir voru jákvæðari. Til dæmis benti einn á að miðað við verðlagsreiknivél hefðu leyfin lækkað að raunvirði. Sá var þó umsvifalaust varaður við slíku tali. „Það er nú gott að þú fannst svigrúm fyrir skattastjórnina til að hækka gjaldið enn meira. Ég greiddi 140.000 krónur árið 2021. Þetta er ansi brattur ferill síðan þá“.
Annar benti á að það sé ekkert nýtt af nálinni að það kosti mikið að veiða. Til dæmis hafi veiðileyfi fyrir laxveiðar hækkað mikið undanfarin ár.
„Hafandi stundað laxveiðar í áratugi er maður ansi vanur verðhækkunum á veiðileyfum. Ef við setjum þetta í samhengi þá fæst fyrir tarfaleyfi einn góður dagur í júlí í Langá eða Haukadalsá. Þar bætist við 39 þús á dag í fæðis- og húsgjald. Leiðsögumaður, ef menn kjósa, sjálfsagt á pari við leiðsögn í hreindýraveiði. Fyrir beljuleyfi fást tveir dagar í urriðaveiði í Laxá í Mývatnssveit á góðum tíma eða tæplega tveir dagar í laxveiði seint í september í Haukadalsá eða Langá. Fyrir tveggja daga laxveiði eða tarfaveiði má líka fara í ágæta veiðiferð til Póllands eða annarra landa. Sem að mínu mati er meira spennandi.“
Eins geti menn hreinlega sleppt veiðum og nýtt peninginn í annað: „Svo getur þú líka bara setið heima og drukkið 612 Heineken í gleri. Þú átt meira að segja möguleika á að fá skilagjaldið til baka.“
Annar vakti athygli á því að það yrði auðvelt að berjast gegn þessum hækkunum, bara ef veiðimenn gætu staðið saman, sem þó væri ólíklegt. Með því að sækja ekki um leyfi þá yrði um fjárhagslegt högg fyrir ríkið að ræða sem myndi leiða til þess að verðið lækkaði aftur. Mögulega gætu svo leiðsögumenn gert skaðabótakröfu í kjölfarið þar sem verðhækkanir hafi kostað þá vinnu með tilheyrandi tjóni. Þetta gæti svo leitt til þess að kvótinn yrði meiri að ári. Sá sem lagði þetta til lauk erindi sínu með kveðju og sagðist hættur veiðum þar sem hann hefur ekki efni á því lengur.
Fleiri tóku undir óánægjuna:
Á öðrum þræði má finna tölfræðihugvekju. Rakið er að í ár sé um að ræða 17% lægri hreindýrakvóta heldur en í fyrra sem þó var lægsti kvótinn í 20 ár. Þar með hafi kvótinn minnkað um 35% á aðeins 3 árum og um 57% frá árinu 2019. Mögulega sé hægt að rökstyðja þessa þróun ef fækkað hefur í hreindýrastofninum um helming. Svo blasir við verðhækkun upp á ríflega 54% á þremur árum. Fyrir því séu engin þekkt rök. „Getur einhver fært fyrir því haldbær rök eða eru þetta bara kolefnisbruðlararnir í 101 með allt sitt innflutta sojaprótein að gera okkur náttúruunnendum sífellt erfiðara fyrir að sækja okkar kjöt í eigin náttúru?“
Samkvæmt svörum við færslunni hefur fækkað töluvert í stofninum þar sem of stór kvóti var gefinn út um nokkurn tíma. Fyrir 30 árum hafi kostnaður við leyfi numið um það bil markaðsverði á kjöti í samræmi við meðalþyngd hreindýrs. Samkvæmt því ætti tarfur í dag að kosta 340 þúsund krónur. Þar með hafi leyfin í raun lækkað í verði þó þau séu vissulega dýr.
Annar rekur að kvótakerfi ríkisins hafi ekki virkað eins og þeim var ætlað. Fækkað hafi í stofni hreindýra og ekki tekist að ná upp þorskstofni eða loðnu. Sumir benda svo á að miðað við verð leyfa í dag borgi sig að fara í veiðiferðir erlendis, svo sem til Suður Afríku eða Póllands. Það sé jafnvel ódýrara.
„Flug til Suður Afríku kostar 120-130 þús fram og til baka með einu stoppi í London. Og 7 daga veiðiferð kostar um 2500 evrur með all included og einhverjum dýrum. Mæli með að skoða það.“
Skoðanir eru því skiptar á kvótanum í ár sem og verðhækkun. Sumum finnst þetta til þess falli að fæla veiðimenn frá, aðrir hafa bent á að hér sé verð á leyfum í samræmi við verðlag þó svo að um ríflega hækkun milli ára sé að ræða.