fbpx
Fimmtudagur 13.febrúar 2025
Fréttir

„Það eru því ekki nema einhverjar vikur eftir af fjölmiðlum Sýnar sem almennum miðlum“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025 16:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, spáir því að Sýn losi sig fljótlega við fjölmiðla sína. Fyrirtækið hafi metnað fyrir hagnaði sem samræmist ekki fjölmiðlarekstri. Þar með verði Vísir settur á sölu og kaupandinn verði líklega úr röðum auðkýfinga sem ætli sér að nota miðlana á svipaðan hátt og eigendur Morgunblaðsins.

Gunnar Smári skrifar á Facebook:

„Nú hefur flóttinn frá Sýn náð inn á ritstjórn, áður hafði her manna í öðrum deildum flúið fyrirtækið. Ég þekki ekki móralinn þarna innan dyra, en líklega er þetta frekar afleiðing af því að augljóst er að Sýn þarf að losa sig við fjölmiðlana þar sem bjartsýnar áætlanir um áskriftar- og auglýsingasölu hafa ekki staðist. Og geta ekki staðist. Fjölmiðlun á Íslandi er hnignandi business og líklega er sá tími liðinn að hægt sé að reka fjölmiðla í von um hagnað. Þeir eiga því ekki heima í skráðu félagi í kauphöll, þar sem gerð er krafa um ávöxtun sem fjölmiðlar geta ekki staðið undir.“

Innan skamms muni Sýn selja fjölmiðla sína frá sér. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að Vísir endi í höndum auðmanna sé að fá lífeyrissjóðina til að kaupa miðlana.

„Það mun því gerast innan skamms að Sýn selur fjölmiðlana frá sér og þá verða líklegir kaupendur einhverjir auðkýfingar sem vilja nota fjölmiðla svipað og kvótagreifarnir sem eiga Moggann. Nú, eða eins og Elon Musk notar Twitter sjálfum sér til upphafningar. Það eru því ekki nema einhverjar vikur eftir af fjölmiðlum Sýnar sem almennum miðlum, þeir verða spenntir fyrir vagn einhvers sem ætlar að verja auð sinn og aðstöðu, gegn almenningi. Besta leiðin til að forða þessu væri að lífeyrissjóðirnir myndu leysa til sín fjölmiðlana, en sjóðirnir eiga mikinn meirihluta af hlutafé Sýnar þótt einhverjir kabojar hafi stjórnað þar öllu í krafti lítils eignarhluta í trausti þess að lífeyrissjóðirnir elti alltaf stærsta einkafjárfestinn, séu einskonar meðreiðarsveinn auðvaldsins.“

Lífeyrissjóðirnir gætu komið fjölmiðlum Sýnar inn í sjálfseignastofnun og reynt að stefna að því að selja almenningi aðild að fjölmiðlunum næstu 30-40 árin til að endurheimta fjárfestinguna. Það sé í hag lífeyrissjóðanna að styrkja innviði og lýðræði.

„Lífeyrissjóðirnir gætu rennt fjölmiðlunum inn í sjálfseignarstofnun og stefnt að því að selja almenningi aðild að henni á næstu 30 til 40 árum til að endurheimta fé sitt. Lífeyrissjóðirnir eiga svo mikið undir íslensku samfélagi að segja má að besta fjárfesting þeirra sé að renna sterkum stoðum undir öflugt og opið lýðræðislegt samfélag og styrkja innviði þess, bæði harða og mjúka.

Ef allt á Íslandi endar í höndum örfárra auðugra fjölskyldna mun fé lífeyrissjóðanna smátt og smátt brenna upp og eyðast. Það gerðist í aðdraganda Hrunsins og mun gerast aftur ef ekki tekst að setja hömlur á auðsöfnun hinna fáu á kostnað öryggis, afkomu og valda fjöldans. Það gagnast lífeyrissjóðum ekkert að veðja á einhver fyrirtæki innan hnignandi samfélags. Þótt fyrirtækin vaxi innan samfélagsins þá fellur verðmæti þeirra með minnandi afli og getu samfélagsins. Fókusinn ætti því að vera á að styrkja og efla samfélagið sem heild, svo það geti lyft upp fólki og fyrirtækjum. Og það verður ekki gert með því að óligarkavæða Ísland enn frekar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt