Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur stöðvað tímabundið framkvæmdir við landfyllingu við Þorlákshafnarhöfn. Brimbrettafólk hefur barist gegn landfyllingunni og hefur kært framkvæmdina til nefndarinnar sem og þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki sé þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Deilur um landfyllinguna hafa orðið nokkuð hatrammlegar en til að mynda fékk Elliði Vignisson bæjarstjóri í sveitarfélaginu Ölfusi, sem Þorlákshöfn er hluti af, tölvupóst þar sem svívirðingum var ausið yfir hann.
Elliði birtir sláandi tölvupóst sem hann fékk – „Skammastu þín helvítis draslið þitt“
Í athugasemdum á Facebook-síðu Elliða, þar sem hann greindi frá tölvupóstinum, er því aftur á móti haldið fram að brimbrettafólk hafi mátt þola hótanir og svívirðingar vegna málsins.
Brimbrettafélag Íslands hefur kært þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að leyfa framkvæmdina sem og þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki væri þörf á umhverfismati. Krafðist félagið þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.
Landfyllingin á að ná yfir eins hektara svæði við Suðurvararbryggju. Landfyllingin á að vera milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingarinnar á að vera um 9.000 fermetrar og ætlað að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar magn landfyllingar er áætlað um 27.000 rúmmetrar og í grjótkápu um 10.000 rúmmetrar til viðbótar. Framkvæmdaleyfi var veitt af bæjarstjórn 30. janúar síðastliðinn og nýtt deiliskipulag vegna landfyllingarinnar tók gildi 3. febrúar. Daginn eftir lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki væri skylt að fara með framkvæmdina í umhverfismat. Áætlað er að framkvæmdin taki þrjá mánuði.
Helstu rök sveitarfélagsins fyrir landfyllingunni eru þau að hún sé hluti af endurbótum og breytingum á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn. Höfnin sé undirstaða atvinnulífs og þróunar byggðar í bænum. Um sé að ræða einu flutnings- og fiskihöfn Suðurlands allt austur til Hornafjarðar, og þjónusti hún einnig höfuðborgarsvæðið. Sé landfyllingin hluti af því efla þjónustu við hafnsækna starfsemi svo sem vöruflutninga, fiskiskip og skemmtiferðaskip. Markmiðið sé að efla atvinnulíf og byggð í Þorlákshöfn.
Brimbrettafélag Íslands telur í sinni kæru að framkvæmdaleyfið og ákvörðun Skipulagsstofnunar séu haldin slíkum annmörkum að það valdi ógildingu. Félagið segir landfyllinguna munu hafa óafturkræfanleg áhrif á öldu sem brimbrettafólk nýtir sér óspart og er kölluð Aðalbrotið. Sagði félagið öldugang á hverjum stað einstakan af náttúrunnar hendi og verði ekki endurskapaður. Með kærunni fylgdi myndband sem ætlað var að sýna að framkvæmdir væru þegar hafnar.
Sveitarfélagið veitti ekki formlega umsögn um þá kröfu Brimbrettafélagsins að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar tímabundið en starfsmaður þess kom því á framfæri að umsögn yrði veitt um kæruna vegna framkvæmdaleyfisins en að það myndi hafa stórkostlegt tjón í för með sér ef að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar, þó það væri bara tímabundið.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er minnt á að samkvæmt lögum fresti kæra til hennar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Hægt sé þó að krefjast tímabundinnar stöðvunar á framkvæmdum en slíkt sé undantekning frá þessari meginreglu en gögn málsins bendi til að framkvæmdir í þessu tillfelli hefðu þegar verið hafnar. Séu heimildir til að stöðva framkvæmdir ekki til staðar væru kærur í svona málum merkingarlausar.
Nefndin segir ýmis álitaefni uppi í málinu sem geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þurfi hún því tóm til að kanna málsatvik frekar, leita eftir sjónarmiðum sveitarfélagsins og eftir atvikum afla frekari gagna.
Þar á meðal muni nefndin kanna nánar hvort Brimbrettafélag Íslands eigi lögvarða hagsmuni í málinu og teljist því lögformlegur málsaðili.
Verði niðurstaðan að svo sé ekki myndi nefndin væntanlega vísa kærunni frá. Brimbrettafélagið vísar til ákvæða í lögum um nefndina þar sem kemur fram að tiltekin samtök sem talin séu gæta almannahagsmuna hafi heimild til að bera vissar ákvarðanir undir nefndina.
Nefndin segir að ljóst sé að þar sem framkvæmdirnar hefðu þegar verið hafnar og ætti að ljúka á þremur mánuðum hefði það enga efnislega þýðingu að fjalla um kæru Brimbrettafélagsins nema að stöðva framkvæmdir á meðan. Ýmiss álitaefni séu uppi í málinu sem þurfi að kanna frekar og því sé skilyrðum laga til stöðvunar framkvæmda fullnægt.
Mögulegt er þó fyrir framkvæmdaraðila að óska eftir flýtimeðferð.