Upplifir virðingarleysi og hroka af hálfu fangavarða á Litla Hrauni – „Ástin spyr ekki um sakavottorð“
„Mér finnst ég fá ákveðið „attitúd“ frá fólki. Ég hef jafnvel upplifað það þannig að fólk forðist mig, eins og það sé hrætt við mig,“ segir Elísa Elínardóttir en unnusti hennar, Hafþór Fjalar Kristinsson hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm í desember 2014 fyrir grófa líkamsárás í miðborg Reykjavíkur. Hún segist ósjaldan verða fyrir fordómum fyrir að vera í sambandi með dæmdum ofbeldismanni; vegna fortíðar manns hennar dragi fólk ósjálfrátt þá ályktun að hún sé sjálf glæpamanneskja. Hún er dæmd fyrir að vera ein af stúlkunum sem eru að hitta „þessa menn.“
DV greindi á dögunum frá niðurstöðum rannsóknar Guðrúnar Lund sem hún vann í tengslum við lokaritgerð sína í félagsfræði en þar kannaði hún aðstæður aðstandenda fanga hérlendis og í Englandi. Tvær ungar íslenskar konur lýsa þar þeim fordómum og svívirðingu sem þær hafa mætt af hálfu fólks fyrir það að eiga maka í fangelsi. Önnur þeirra lýsir því svo: „Það búast allir við því að maður sé eins. Ef maður á maka sem er í þessu skilurðu, alveg jafn mikið fífl. Það er náttúrulega engan veginn svoleiðis. Maður er bara settur undir sama hatt.“
Í samtali við blaðamann segist Elísa hiklaust taka undir með konunum tveimur, og þá ekki síst hvað varðar fordómana. Segir hún að fordómarnir og virðingarleysið komi bæði frá fangelsisstarfsmönnum og fólkinu í kringum hana. Aðstandendur fanga eru falinn hópur í samfélaginu og telur hún að það sé full ástæða til veita fólki innsýn inn í veruleika þeirra sem eiga ástvini innan fangelsismúranna.
„Ég skammast mín alls ekki fyrir þetta og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að opna á þessa umræðu, enda er þetta ákveðið tabú.“
Elísa og Hafþór tóku upp samband síðasta vor en þá sat Hafþór inni á Litla Hrauni. „Þá var hann búinn að sitja inni í hálft ár en ég þekkti hann ekki fyrir. Við eigum sameiginlegan vin sem hvatti hann til að hafa samband við mig þannig að hann hringdi í mig og við byrjuðum að spjalla. Ég var nú frekar treg í fyrstu en svo var bara svo gott að spjalla við hann og við náðum svo vel saman. Þannig að þetta var náin vinátta sem þróaðist síðan út í samband,“ segir hún jafnframt og bætir við að þau hafi síðan hist í fyrsta skipti nokkrum vikum síðar.
Fyrstu tvær heimsóknirnar voru klukkutíma langar og fóru fram bak við gler. Elísa segir að strax í fyrstu heimsókninni á Litla Hraun hafi hún upplifað afar neikvætt viðhorf af hálfu starfsmanna fangelsisins. Segir hún að framkoma þeirra hafi litast af virðingarleysi og tortryggni í hennar garð.
„Ég upplifði það eins og það væri litið á mig sem glæpamann. Ég er með hreint sakavottorð og hef aldrei verið tengd þessum glæpaheimi, ég er bara venjuleg manneskja sem sinnir vinnunni á hverjum degi.“
„Virðingarleysið fannst mér vera algjört. Ég þurfti að svara fyrir það af hverju ég væri að fara að hitta hann, hvernig ég hefði kynnst honum, hvar ég hefði fengið símanúmerið hans. Eins var reynt að draga upp úr mér hvort hann og vinir hans væru á netinu á fangelsinu. Þegar ég kom í annað skiptið að hitta hann sagði fangavörður við mig: „Jæja, þér líst svona vel á hann? Þú ert alveg til í þetta?“
Elísa telur að ekki gangi það sama yfir alla fanga þegar kemur að heimsóknum. Það sé háð geðþóttaákvörðunum fangavarða. „Í fyrstu fá fangarnir eingöngu heimsóknir á virkum dögum: Þeir þurfa að vinna sér inn helgarheimsóknir. Það tók okkur langan tíma að fá það í gegn því það er eins og þeir fangar sem eru ekki í náðinni hjá fangavörðum séu hunsaðir með þetta. Þannig er eins og að það sé verið að refsa aðstandandum alveg jafn mikið og fanganum. Ef fangaverðir hafa eitthvað á móti þínum manni þá bitnar það á þér. Þegar þú ert í fullri vinnu á virkum dögum þá er ekkert annað í boði en að taka sér frí úr vinnu til að keyra í fangelsið. Þetta er heilmikið ferðalag.“
„Það er aldrei hleypt inn fyrr en á slaginu, sama þó það skeiki ekki nema bara nokkrum mínútum. Í eitt skipti var ég komin fimm mínútur í eitt og var rekin til baka út í bíl með miklum skömmum,“ heldur Elísa áfram en hún segir að þegar að ástvinur dvelji í fangelsi þar sem heimsóknir eru takmarkaðar þá skipti hver einasta mínúta í heimsókninni máli. „Að minnsta kostir korter af heimsóknartímanum fer í ferlið við að komast inn og það er ansi drjúgur tími þegar á það er litið. Eins hef ég lent í því að það hafi gleymst að kalla á hann, ég hef þá þurft að bíða inni í heimsóknarherberginu í langa stund og síðan aðeins einhverjar mínútur með honum.“
Elísa segir að hennar saga sé ekkert einsdæmi. „Ég hef séð konur vera að koma þarna að hitta mennina sína, þær eru sumar með eitt eða fleiri börn með sér og eru með fullt af pokum og dóti sem fylgir. Þær eiga fullt í fangi með allt saman en samt er aldrei neinn sem býðst til að létta aðeins undir með þeim, þó það sé ekki nema til að bjóðast til að bera fyrir þær pokana. Þær eru bara hunsaðar og settar í einhvern ruslflokk, “ segir hún og bætir við að hún þekki ágætlega til annara aðstandenda fanga á Litla Hrauni sem deilt hafi með henni reynslu sinni. „Ég veit líka um mörg dæmi þess að konur sem eiga menn sem sitja inni fyrir fíkniefnabrot eru ósjálfrátt taldar vera sjálfar í dópi og rugli . Þær eru þess vegna alltaf teknar til hliðar í heimsóknum og krafist þess að fá að framkvæma líkamsleit á þeim.“
Hún telur að það mætti bæta aðkomuna á Litla Hrauni þegar þangað er komið í heimsóknir, enda sé umhverfið nógu framandi og ógnvekjandi fyrir. „Ég held að það myndi breyta miklu að fá bara aðeins manneskjulegra viðmót, svo þú sért ekki uppfullur af kvíða og stressi í aðstæðum sem eru annars mjög niðurdrepandi. Þannig að þú upplifir það þannig að það sé borin virðing fyrir þér. Aðstandendur hafa ekkert gert af sér og eru yfirleitt að gera það besta sem þeir geta í mjög svo ömurlegum aðstæðum.“
„Þegar við byrjuðum að vera saman þá átti ég vissulega von á því að fólkið í kringum mig myndi líta sambandið hornauga. En ég bjóst ekki við því að fangaverðir, sem vinna við þetta alla daga myndu sýna mér þetta viðhorf í stað þess að leggja sig fram við gera heimsóknina bærilega. Sýna aðeins meiri nærgætni. Það er ekki auðvelt að koma inn á Litla Hraun, sérstaklega ekki í fyrstu skiptin.“
Elísa tekur fram að hún hafi ávallt sýnt fyllstu kurteisi og samvinnuþýðni í heimsóknum í fangelsið. „Ég hef alltaf sýnt allt sem ég hef verið beðin um að sýna, alltaf leyft fíkniefnahundinum að sniffa á mér og alltaf hlýtt öllum reglum. Enda tók ég eftir því þegar lengra leið á að fangaverðirnir urðu aðeins slakari. Þegar hann fór síðan á Sogn þá fannst mér umhverfið þar einnig vera afslappaðra.“
„Ef ég segi þetta ætlaru þá að hringja í kallinn þinn og láta hann koma og berja mig?“ er dæmi um brandara sem Elísa hefur fengið að heyra í tengslum við mann sinn.
„Mér finnst frekar erfitt að hafa húmor fyrir þessu. Ég er góð manneskja sem vill engum illt og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir því hvað orð geta sært. Stundum er eins og fólk að haldi að ég sé breytt manneskja og sé komin á fullt í neyslu og innbrot. Það er eins og fólk geri ráð fyrir því að ef að maðurinn minn myndi fara á fullt í rugl þá myndi ég bara fylgja honum ósjálfrátt, eins og ég sé ekki sjálfstæð manneskja sem geti tekið eigin ákvarðanir.“
„Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að maður tekur þetta svo mikið inn á sig og það er auðvelt að fyllast af efasemdum um sjálfan sig. Þú hugsar kanski: „Bíddu, er ég svona dópistaleg? Er ég svona hóruleg í útliti?“
Hafþór kom út af Sogni í byrjun september og fór þá á Vernd. Hann fékk ökklaband í janúar og mun fá reynslulausn í lok mánaðarins. Parið stendur í hreiðurgerð þessa dagana og eiga von á litlum dreng í vor. Elísa kveðst stolt af sínum manni. „Hann er búinn að vera í meðferð og gengur afskaplega vel. Við njótum lífsins saman þessa dagana. Hafþór langar að fara í smiðinn eða múrarann í framtíðinni og jafnvel stofna fyrirtæki. Ég sé það alveg fyrir mér að hann fari að byggja hús fyrir okkur úti á landi þar sem við endum síðan með helling af hundum og börnum,“ segir hún að lokum hlæjandi en hún vonast til þess að með því að segja frá sinni upplifun þá muni hún ná að vekja fólk til umhugsunar.
„Ástin spyr ekki um sakavottorð, það er bara þannig. Og við getum ekki planað það fyrirfram hverjum við verðum ástfangin af.“