Elizabeth Holmes hefur nú rofið þögnina og stigið fram í fyrsta viðtalinu áður en hún hóf afplánun refsingar sinnar. Hún var dæmd fyrir gróf svik í gegnum líftæknifyrirtæki sitt Theranos. Hún segir afplánuna hreint helvíti og það sé óbærilegt að þurfa að vera frá ungum börnum sínum. Holmes heldur enn fram sakleysi sínu og ætlar í framtíðinin að berjast fyrir umbótum í réttarkerfinu. Hún ræddi við People um lífið í fangelsinu.
Holmes hefur nú afplánað tvö ár af 11,25 ára refsingu sinni, sem hefur nú verið stytt í 9 ár fyrir góða hegðun. Hún var sakfelld fyrir fjársvik eftir að spilaborgin í kringum líftæknifyrirtækið Theranos hrundi.
„Ég er ekki sama manneskjan og ég var þá,“ segir Holmes sem neitaði sök fyrir dómi og heldur enn fram sakleysi sínu. Hún gengst þó við því að hún hefði farið öðruvísi hefði hún vitað hvernig færi.
„Þetta er súrt. Fólk sem hefur aldrei hitt mig er með svo sterkar skoðanir á mér. Það skilur ekki hver ég er. Þessar aðstæður þvinga mann til að verja miklum tíma í að velta fyrir sér sleggjudómum og í að vona að sannleikurinn sigri. Ég er leidd áfram af trúnni og fyrst og fremst sannleikanum. En það hefur verið hreint helvíti og pynting að vera hér.“
Elizabeth var aðeins 19 ára þegar hún tilkynnti að hún hún væri með byltingarkennda tækni í þróun sem gæti greint svo gott sem alla sjúkdóma með aðeins einum blóðdropa. Hún ætlaði sér stóra hluti í líftæknigeiranum og varð fljótt algjör rokkstjarna. Hún stofnaði furirtækið Theranos sem var árið 2014 metið á 4,5 milljarða og var með 800 einstaklinga í vinnu. Hún var yfirlýsingaglöð um þessa byltingarkenndu tækni sína sem fékk fjárfesta til að hálf partinn fleygja í hana peningum. Hún benti á glæsilegar niðurstöður rannsókna og hrósaði sér yfir glæstum viðurkenningum sem fyrirtæki hennar hafð fengið. Ekkert af þessu reyndist rétt, en það vissu menn ekki þá.
Ekki fyrr en fólk fór að taka eftir því að Theranos var ekki að gera neitt. Holmes fór mikinn í umræðunni, en hvað um þessa tækni hennar? Rannsókn var hafin árið 2018 og fór svo að Holmes var dæmd í fangelsi fyrir fjársvik. Theranos reyndist vera svikamylla og fjárfestarnir féllu fyrir henni.
Holmes segist hafa orðið fyrir réttarmorði. Það sé ekki glæpur að koma fyrirtæki í þrot.
Læknar og sjúklingar gáfu skýrslu fyrir dómi og sögðu að blóðprufurnar sem Holmes þróaði og seldi væru ekkert annað en svikamylla. Ein kona lýsti því að niðurstöður prófana á blóði hennar hefðu sýnt að hún hefði misst fóstur þegar hún var í raun þunguð. Annar sjúklingur fékk þær niðurstöður að hann gæti verið með ristilkrabbamein þegar hann var þó fullkomlega heilbrigður. Sá þriðji var ranglega greindur með HIV-smit.
Holmes eignaðist sitt fyrsta barn nokkrum vikum áður en aðalmeðferð í máli hennar hófst. Eiginmaður hennar, Evans, var staðráðinn í að byggja upp líf með henni þrátt fyrir hættuna á að hún yrði dæmd í fangelsi. Ári síðar varð Holmes aftur ólétt. Þegar yngra barn hennar var aðeins 3ja mánaða mætti Holmes til afplánunar. Fyrstu vikurnar í fangelsinu fékk hún að nota brjóstapumpu svo dóttir hennar gæti áfram fengið móðurmjólkina.
Sjá einnig: Ris og fall Elizabeth Holmes – Kennslubók í algjörri siðblindu
Lífið í fangelsinu er í föstum skorðum. Hún vaknar klukkan fimm á morgnana, fær sér ávexti, eyðir svo 40 mínútum í líkamsrækt. Klukkan 8 er hún mætt í skólabyggingu fangelsisins þar sem hún vinnur við að hjálpa konum sem eru við það að losna úr afplánun. Fyrir það fær hún 31 cent á klukkustund eða 45 krónur. Hún vinnur líka við lögfræðiaðstoð og kennir frönsku.
Þegar hún losnar úr fangelsinu ætlar hún að berjast fyrir umbótum í réttarkerfinu, einkum því að fólk sé álitið saklaust uns sekt sé sönnuð. Hún ætlar líka aftur að vinna við líftækni og segist enn vera sami frumkvöðullinn og hún var. Hún hafi fengið mikið af hugmyndum í fangelsinu sem hún ætlar að sækja um einkaleyfi fyrir og ætlar sér áfram að finna ódýrar heilbrigðislausnir.
Tvisvar í viku, í fáeinar klukkustundir, fær hún börnin sín í heimsókn. Þau eru 3 og 2 ára. Hún segir óbærilegt að vera frá börnum sínum og ætlar sér í framtíðinni að gerast talsmaður foreldra sem eru gerðir viðskilja við börn sín út af réttarkerfinu.
„Fólkið sem ég elska mest þarf að ganga burt á meðan ég stend hér, fangi, og átta mig á raunveruleikanum.“
Eftir að upp komst um svikamyllu Holmes var talað um að málið væri kennslubókardæmi um siðblindu sem yrði án efa rannsóknarefni til fjölda ára.