Óvænt ákvörðun Víkings að hætta leik í Lengjubikar karla er ekki gerð í neinum leiðindum, félagið telur sig ekki geta spilað þá leiki sem eru á dagskrá.
Víkingur er á leið í verkefni gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni og leikur þar tvo leiki á næstunni.
Liðið átti að mæta ÍR um helgina í Lengjubikarnum en nú hefur liðið ákveðið að hætta við þátttöku í Lengjubikarnum.
Meira:
Víkingur hættir keppni í Lengjubikarnum – Snubbótt yfirlýsing frá KSÍ
„Ég veit ekki hvernig aðdragandinn er, þeir eru í öðrum verkefnum. Þeir hafa verið að skoða hvernig hægt er að koma þessu fyrir, þeir eru erlendis á milli leikjanna,“ segir Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ við 433.is en Víkingar verða erlendis fram undi lok næstu viku.
Ofan á þetta verkefni bætist svo við æfingaferð félagsins. „Þeir eru að fara í æfingaferð í framhaldinu, þetta er leiðinlegt að það hafi ekki verið hægt að hafa það þannig að þeir gætu klárað mótið. Svona er þetta.“
Spurður að því hvort einhver leiðindi hafi komið upp í tengslum við þetta mál. „Nei, nei, þetta er ekki í neinum leiðindum, yfirvegað mat þeirra á þeim verkefnum sem þeir eru í núna.“
Á ýmsu hefur gengið undanfarið milli KSÍ og Víkings en sambandið sektaði félagið í þrígang fyrir að nota ólöglega leikmenn í Reykjavíkurmótinu. Þriðja sektin var hærri en hinar tveir sem vakti furðu Víkinga.