„Á stofugangi í morgun var sagt við mig að það yrði bara tekinn einn dagur í einu. Ég fékk sýkingu í blóðið, það er búið að byggja upp æðakerfi í mér með gerviæðum þannig að þetta er allt mjög viðkvæmt og hætt við að safni að sér bakteríum eða sýklum,“
segir Björn Sigurður Jónsson varaformaður Björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveit og sauðfjárbóndi frá Fagranesi Sauðárkróki í samtali við DV.
Björn liggur nú í einangrun á deild 12G á Landspítalanum við Hringbraut, legudeild fyrir hjarta-, lungna- og augnskurðarsjúklinga. Fyrir viku kom Björn með sjúkraflugi til landsins eftir aðgerð í Svíþjóð. Þangað var honum flogið með hraði eftir aðgerð á Landspítalanum og segir Björn að hann væri ekki á lífi í dag ef Reykjavíkurflugvöllur væri ekki þar sem hann er.
Björn er talsmaður þess að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað, í Vatnsmýrinni rétt við Landspítalann og í samtali við blaðamann og í færslu sem hann birti í gær á Facebook segir hann sína sögu.
„Reykjavíkurflugvöllur er ekki bara fyrir landsbyggðina að komast á spítala í Reykjavík, heldur alla landsmenn og þar með Reykvíkinga að komast erlendis í bráðaþjónustu. Í mínu tilviki ef Svíar hefðu ekki komist með sína flugvél á Reykjavíkurflugvöll að ná í mig þá hefði ég ekki lifað af. Þannig er bara staðan.
Það þarf enginn að segja mér að þessi tvö tilvik hjá mér séu einsdæmi í Íslandssögunni. Þegar ég spyr sjúkraflutningamenn um hverjir eru helst að fara í sjúkraflug, eins og til dæmis til Svíþjóðar, þá eru það börn sem eru að fara í hjartaaðgerð. Lítil börn.“
Björn segist mikill lýðræðismaður og helst vilja kjósa um allt, þar á meðal um hvar Reykjavíkurflugvöllur á að vera til framtíðar. „Það er ekki hægt að hafa þetta sem pólitískt þrætuepli þetta er málefni landsmanna en ekki pólitíkusa. Það getur vel verið að það verði næsta skref að kjósa um þetta,“ segir Björn og í samtali við blaðamann kemur upp sú hugmynd hvort sveitarstjórnarkosningar að ári séu ekki tilvalið tækifæri til að kjósa líka um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.
„Ef við ætlum að loka augunum af því það langar einhvern að byggja á þessu landsvæði þá skulum við vera búin að byggja nýtt hátæknisjúkrahús með nýja flugbraut áður en við förum að ræða að flytja flugvöllinn. En meðan er ekki búið að gera það skulum við ekkert vera að ræða þessi mál. Fyrir mér er þetta bara helgur staður sem hvorki okkar kynslóð né næsta kynslóð getur farið að krukka í til að reyna að afla peninga. Það er búið að taka þetta svæði frá til framtíðar fyrir heilbrigðismál og þannig skal það vera. Við höfum ekki efni á að breyta því á nokkurn einasta hátt. Það er óboðlegt að það fari eftir einhverjum ráðherrum hvort við ætlum að henda einhverju burt eða halda, það þarf að festa þetta til framtíðar. Og loka málinu svo að við séum ekki alltaf að ræða þetta og vekja upp úlfúð, þetta vekur líka upp hræðslu hjá fólki hvort er verið að fara að loka á það eða ekki. Mér finnst þetta bara lýsa mannleysi stjórnvalda, ég veit ekki hvað fólkið er að hugsa.“
Í færslu sinni á Facebook rekur Björn sjúkrasögu sína sem hófst árið 2016.
„Árið 2016 dett ég í vinnunni minni og fell á brjóstið úr mikilli hæð en það dregur úr sársauka eftir dálítinn tíma og ég var viss að ég væri bara rifbeinsbrotinn og af reynslu vissi ég að lítið væri hægt að gera í þeim málum. Ég var verkjaður næstu daga og taldi það enn vera bara rifbeinsbrotið en þegar ég er úti á hlaði heima hjá mér, finn ég þennan hræðilega verk fyrir brjósti og get rétt gert Camillu konu minni ljóst að það þurfi að hringja í neyðarlínuna,“ segir Björn sem mundi næst eftir sér eftir að gerð hafði verið aðgerð á honum á Landspítalanum.
„Þegar ég dett niður heima hjá mér að þá eru það lögregla, sjúkraflutningamenn og læknar sem komu mér í sjúkraflug með hraði til Reykjavíkur á sjúkrahús allra landsmanna Landspítalann. Þar tekur teymi við mér og lýsir jafnframt því yfir við Camillu að ástandið á mér sé mjög tvísýnt. Gunnar Mýrdal sá frábæri læknir sem lést langt um aldur fram tók stóran þátt í að bjarga lífi mínu þarna.
Við fallið á vinnustaðnum hafði komið leki við ósæð og lak blóð inn í gollurshús og það var orðið fullt og hjartavirknin var orðin mjög lítil. Ég fæ fulla meðvitund eftir aðgerð og Gunnar Mýrdal kemur og segir mér að þetta hafi staðið tæpt. Ef ég hefði verið tveimur mínútum seinna á ferðinni hefði það verið of seint. Hann bætir því við, að það er öruggt ef Reykjavíkurflugvöllur hefði ekki verið væri ég ekki heldur lifandi og bað mig að hugsa vel um flugvöllinn okkar og hvað hann skipti miklu máli. Ég lofaði að bera hann fyrir brjósti og verja þegar á væri ráðist. Ég hef ekki staðið mig nærri nógu vel í því en vil reyna að bæta það,“ segir Björn í færslunni.
Í samtali við blaðamenn ítrekar hann það og segist hafa skuldað Gunnari lífgjöfina og færslu um að verja flugvöllinn.
„Maður sér lítið hverjar eru forsendurnar hvort flugvöllurinn eigi að vera eða fara. Forsendurnar virðast vera hvort þú getur lent með lifandi farþega á vellinum en þú þarft ekki endilega að skila honum lifandi á sjúkrahús,“ segir Björn.
Fljótlega eftir aðgerðina 2016 fékk Björn þær fréttir að hann sé með laskaða ósæð og þurfi að fara í opna hjartaaðgerð til að laga það.
„Ég var í raun kominn með rauða spjaldið og mátti ekki lyfta meira en mjólkurfernu og ekki labba stiga. Því miður var biðin eftir aðgerð sex mánuðir vegna skorts á gjörgæslurúmum og þennan tíma sem ég beið var mikið spáð í flugveður og aðstöðu til lendingar á Sauðárkrók og Reykjavík því ég vissi að sjúkraflugið væri mín eina von ef kæmi upp leki aftur.
Sem betur fer náði Gunnar Mýrdal og teymi hans að gera við þennan leka með opinni skurðaðgerð sem átti sér stað í mars 2018.“
Eftir þá aðgerð hélt Björn áfram undir stöðugu eftirliti lækna. „Ég sinnti flest allri vinnu, en auðvitað tapaði ég þreki. Ég er með sauðfjárbú, svo keyri ég skólabíl, er með hrossarækt og hef verið í ýmsu. Ég hef minnkað við mig vinnu gegnum tíðina. En ég tel mig hafa verið ekki síðri en aðrir í starfsþreki.“
Í janúar á þessu ári fór Björn að finna fyrir slappleika, á þriðjudegi á leið heim úr vinnu og lét hann konuna sína vita að hún þyrfti að skutla honum á spítala á Sauðárkróki.
„Það voru félagar mínir, sömu sjúkraflutningamenn og fluttu mig síðast sem flugu mér á gjörgæslu á Landspítalanum, læknir fór líka með og ég var settur fljótt í aðgerð. Sem gekk vel nema það vantar bara mannskap,“ segir Björn.
„Enn og aftur er það sjúkraflugið og sér í lagi Reykjavíkurflugvöllur og nálægðin við sjúkrahús okkar Íslendinga sem á stóran hlut í því að ég er hér í dag. Það er alveg ljóst að fólk á ekki að vera gera lítið úr þeim staðreyndum að þegar bráðatilfelli koma upp að þá skiptir lífsmáli að vegalengd á milli sjúkrahúss og flugvallar séu sem styðst. Þeir sem halda öðru fram bera ekki virðingu fyrir lífi þeirra sem berjast fyrir lífi sínu þegar bráðatilfelli koma upp. Tíminn skiptir máli og oft það eina sem getur bjargað mannslífum er að komast á sjúkrahúsið á sem stystum tíma.“
Björn segir að þegar hann var kominn á gjörgæslu kom í ljós að það hefur verið einhver leki á ósæð og flysjun á henni, og fljótlega kom í ljós að ósæðin er að stórum hluta ónýt.
„Blóðflæðið í fæturna hverfur þegar æðin hættir að virka og öll líffæri því í mikilli hættu. Þegar það á að fara í viðgerðir og reyna að bjarga blóðflæðinu í fæturna kemur hins vegar í ljós að æðakerfið niður í fætur er stíflað og illa farið. Ég enda því á því að þurfa þræðingu niður í fætur þar sem blóðflæðið var nánast ekkert eftir niður í þær. Læknunum á Landspítalanum tókst að ná að tengja úr æðunum á hægri hendi á mér niður í hægri fót og þaðan niður í vinstri. Með því koma þeir blóðflæði aftur í fæturna á mér, aðgerðin var löng og tók um átta klukkutíma en teymið á Landspítalanum náði að framkvæma kraftaverk. Eftir aðgerðina á fótunum er ósæðin samt enn þá ónýt og ástandið því enn mjög tvísýnt. Mér er áfram haldið sofandi meðan ákvörðun er tekin um næstu skref. Vegna skorts á læknum á Landspítalanum og ekki næg sérþekking til staðar á aðgerðum sem gerðar eru til að laga ósæðina, þá er ákvörðun tekin um að senda mig til Svíþjóðar. Svíar senda læknateymi og sjúkraflugvél til þess að sækja mig til íslands og fara með mig til Uppsala í Svíþjóð þar sem frábært læknateymi tók við mér. Ég fer þar í aðgerð sem tekur rúma 12 klukkutíma. Enn og aftur skipti sköpum að Reykjavíkurflugvöllur væri stutt frá Landspítalanum, því læknarnir töldu mig ekki lifa það af að vera fluttan í sjúkrabíl frá Landspítalanum til Keflavíkurflugvallar, ástandið var það alvarlegt. Ég á þessu frábæra fólki lífið að launa. Svíar eru ótrúlega duglegir að hjálpa okkur Íslendingum þegar koma upp vandræði þó held ég að það sé eitthvað lítið um samninga milli þessara þjóða.“
Björn segist hafa þá tilfinningu að læknar á Landsspítalanum tali bara við kollega sína erlendis og reddi málum þannig. Hann er ekki viss um hvort samningur er til staðar milli spítalanna, en leggur til að við gerum slíkan samning þegar kemur a öllum heilbrigðismálum.
„Ég veit það er samningur við Svíþjóð vegna brunasjúklinga af því það er bara eitt rúm hér heima. Það er magnað að setja þessa ábyrgð á þessa frábæru lækna okkar og utanumhaldið. Þegr ég er kominn út þá eru vandræði með sjúkraskýrslurnar. Konan mín var spurð út í hvað hefði verið gert fyrir mig, hún var svona gagnabanki með sjúkragögnin af því sjúkraskýrslurnar máttu ekki fara út.
Fjölskylda mín, tvær dætur og tveir tengdasynir, komu öll á eftir mér. Og þau gistu á sjúkrahóteli nálægt mér, sem var svona óvænt heppni, af því það lá ekkert fyrir hvert væri verið að senda mig. Það eru svona verkferlar á leiinni sem mætti laga. Auðvitað miðast þetta við sjúklinginn en ekki aðstandendur sem koma á eftir honum. En þessi pakki er aðeins stærri en aðstandendur sjá fyrir sér í upphafi og það mætti alveg vera einhver aðstoð í boði fyrir aðstandendur.“
Björn segir það hagsmunamál að fá öfluga flugvél í sjúkraflug milli Íslands og annarra landa.
„Þegar mér var flogið heim þá var ég í sex og hálfan klukkutíma í sjúkraflugvél á leiðinni heim af því það var mótvindur og það þurfti að taka eldsneyti, þetta er gríðarlegur tími. Konan mín kom degi á eftir mér með farþegaflugvél og hún var tvo og hálfan tíma. Þetta er eins og sjúkrabíllinn sé orðinn eins og traktor á móti fólksbíl.“
Bendir Björn á flugvél Landhelgisgæslunnar, og hvort megi nýta hana í sjúkraflugið eða selja hana og nýta söluandvirðið til að kaupa sjúkraflugvél. „Ég held að peningum sé miklu betur varið í sjúkraflugvél en einhverja loftgæsluflugvél um landið.
„Ég legg til að við eyðum kröftum okkar í að gera samninga við aðrar þjóðir um lækningar og lífsbjargandi hjálp, styrkja heilbrigðiskerfið og hætta með þessar raddir að leggja flugvöllinn niður. Ef það á að koma nýr flugvöllur þá verður hann að vera við nýjan spítala, tíminn skiptir máli. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál landsbyggðarinnar heldur skulum við hugsa um blessuð börnin sem er flogið af Landspítala í lífsbjargandi aðgerð erlendis og orða þetta með hagsmuni Íslands alls, við skulum standa vörð um Reykjavíkurflugvöll.“
Björn segist hafa áhuga á að hitta stjórnmálamenn og ræða málefni flugvallarins við þá.
Björn segir að vel sé hugsað um hann á Landspítalanum, og hann sjái starfsfólkið hlaupa fram og tilbaka enda mikið álag á starfsfólkinu.
„Það stingur mann hver vinnan á fólkinu er og þegar maður fer að ræða við þessar hetjur sem vinna hér. Sem dæmi er hér hjúkrunarfræðingur sem er í fullri vinnu í verknámi en fær ekki laun af því hann er í verknámi. Ef þú ert smiður í verknámi þá ertu á launum. Það er verið að fara svo illa með fólk og ég sá það þegar ég var í Svíþjóð að þar er fólk á launum í verknámi. Hér erum við að gera hlutina einhvern veginn allt öðruvísi en aðrir,“ segir Björn og bætir við að ráðamenn ættu að hafa reynslu af að vinna á gólfinu eins og sagt er, hafa farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.
Björn er eins og sagði í upphafi í sóttkví sem eykur á álag heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir honum.
„Ég er í sóttkví vegna þess að allir sem koma frá erlendum spítala fara í sóttkví út af MÓSA-smiti sem er erlendis. Allir hjúkrunarfræðingar og læknar sem koma til mín þurfa að fara í sérfatnað, eins ef ég fer út þá þarf ég að fara í sérfatnað. Þetta tefur starfsemina og þú getur ímyndað ef eitthvað gleymist, þá þurfa þau að klæða sig úr og aftur í.“
Björn er búinn með tímann sem hann hefði legið á spítala ef aðgerðin hefði verið eðlileg og ætti því að vera að útskrifast. Óvíst er hvað hann mun liggja lengi á Landspítalanum.
„Af því þetta er taka tvö þá þekkir maður ferlið dálítið og man hvernig þetta var síðast. Auðvitað er ég óþolinmóður en ég er ákaflega þakklátur fyrir þetta mikla og færa heilbrigðisstarfsfólk sem við eigum. Ég veit ekki hvort Íslendingar eða stjórnvöld gera sér grein fyrir hversu mikla vinnu þau leggja á sig og álagið sem er á þessu fólki. Þegar ég var í Svíþjóð á gjörgæslu voru fjórir að hugsa um mig þar, en þeir eru tveir hér. Og ég er ekki eini sjúklingurinn sem þeir eru með. Þetta fólk er ekki að stoppa á kaffistofum og spjalla mikið.
Hérna hef ég notið gríðarlegrar hlýju og velvildar. Ég hefði aldrei trúað að starfsfólkið sem hefur svo mikið að gera geti gefið svona endalaust af sér. Það þarf að sýna þessu fólki virðingu og spyrja fólkið sem vinnur vinnuna hvernig hlutirnir eiga að vera. Ráðamenn eiga ekki að setja sig á háan stall gagnvart þessu fólki, þetta er fólkið sem veit hvernig best er að gera hlutina. Það er því mikilvægt að við höldum í starfsfólkið í heilbrigðisgeiranum.
Það eru mörg skref búin hjá mér, það eru hins vegar enn nokkuð í land og fer ég jákvæður í framhaldið. Ég vill þakka allan hlýhuginn og þær góðu kveðjur sem ég hef fengið. Án fjölskyldu minnar hefði þetta ekki verið möguleiki, þar sem hún er búin að styðja þétt við bakið á mér.“