Enn þá er barist gegn því að Ísland taki þátt í Eurovision söngvakeppninni ef Ísrael fær að taka þátt. Þúsundir hafa skrifað undir undirskriftalista og listamaðurinn Þrándur birtir mynd af ádeilumálverki sínu.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Söngvakeppni Sjónvarpsins er í fullum gangi, fyrra undanúrslitakvöldið er búið og það seinna er um helgina. Að óbreyttu verður sigurvegari keppninnar sendur út til Basel í Sviss í maí til að syngja fyrir Íslands hönd í Eurovision.
En það eru ekki allir landsmenn sáttir við þetta. Á undirskriftalista gegn þátttöku Íslands, fái Ísrael að taka þátt, hafa tæplega 3.500 manns ritað nafn sitt.
„Framganga Ísraels í Palestínu stríðir gegn yfirlýstum friðarboðskap Söngvakeppninnar. Yfir fjörutíu þúsund manneskjur hafa verið drepnar í sprengjuregni Ísraels á Palestínu. Ísrael hefur eyðilagt nánast öll sjúkrahús og skóla á Gaza, jafnað heilu þorpin og borgirnar við jörðu, brennt tjaldbúðir flóttafólks, myrt óbreytta borgara þar á meðal: börn, barnshafandi konur, sjúklinga, lækna, hjálparstarfsfólk alþjóðlegra stofnana, kennara og blaðamenn. Þrátt fyrir þetta fær Ísrael að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2025 í stað þess að þeim sé meinuð þátttaka eins og Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu,“ segir í tilkynningu með undirskriftalistanum.
Vopnahlé var nýlega undirritað á milli Ísrael og Hamas hreyfingarinnar, en það er ákaflega brothætt. Þá hafa yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um að taka yfir Gaza ströndina og hefja þar þjóðernishreinsanir farið öfugt ofan í mest alla heimsbyggðina og vitaskuld ekki síst Palestínumenn sjálfa.
BDS Ísland, samtök sem stefna að sniðgöngu alls þess sem ísraelskt er, hafa auglýst undirskriftalistann gegn þátttöku Íslands í Eurovision eftir að vopnahléið var gert. Það gera fleiri, meðal annars myndlistarmaðurinn Þrándur Þórarinsson.
„„Ísland skal smána sig í söngvakeppninni“ segir útvarps og lögreglustjóri. Skrifið undir Ísland úr Eurovision ákallið!“ segir hann í færslu á samfélagsmiðlum.
Með færslunni birtir hann beitt ádeilumálverk sem sýnir Stefán Eiríksson í lögreglubúningi, merktum RÚV, og ísraelsku Davíðsstjörnuna í bakgrunni.
Þrátt fyrir að baráttan fyrir sniðgöngu Eurovision sé enn þá til staðar hefur ekki farið jafn mikið fyrir henni og á síðasta ári þegar Hera Björk Þórhallsdóttir tók þátt fyrir Íslands hönd. Umræðan um þá keppni var mjög hatrömm, ekki aðeins á Íslandi heldur víða í Evrópu, og áhorfið sennilega sjaldan verið minna.