Því var haldið fram í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin að gríðarlega mikið tap hafi verið á rekstri knattspyrnudeildar Tindastóls á síðustu leiktíð. Félagið var með lið í efstu deild kvenna og fjórðu deild karla.
Sauðárkrókur er mikill íþróttabær en karlalið félagsins vann 4. deildina með miklum glæsibrag og kvennalið hélt sér í efstu deild.
„Kaupfélagið borgaði, það var rúmlega 30 milljóna króna skuld eftir síðasta tímabil,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni í dag.
Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA tók til máls og sagði það eðlilegt að Kaupfélag Skagfirðinga hjálpi fótboltanum líka. „Þeir verða að gera það, þeir eru að kaupa körfuboltamenn fyrir 34 milljónir í hverri viku.“
Mikael hafði haft veður af því að reksturinn væri í vandræðum. „Markmaðurinn sem var hjá mér í KFA 2023 og var í Tindastóli síðasta sumar, hann var valinn besti leikmaður 4. deildarinnar. Mér skilst að það hafi oft verið töf á launagreiðslum.“
Kristján Óli sagði þennan stóra mínus á rekstri deildarinnar aðallega hafa komið vegna kvennaliðs félagsins.