Bandaríska geimferðastofnunin NASA metur líkurnar á að loftsteinninn lendi í árekstri við jörðina um 2,3% en ekki er langt síðan líkurnar voru metnar 1,3%. Ef af árekstri verður mun það gerast rétt fyrir jólin 2032 og gætu afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar.
Andrews, sem er með um 25 þúsund fylgjendur á X, skýrði frá því í nokkrum færslum á miðlinum að ýmsir hefðu varpað því fram að nægur tími sé til að bregðast við ef allt fer á versta veg.
Sjá einnig: Hann er 90 metrar á lengd og stefnir á jörðina – Hverjar verða afleiðingarnar ef til áreksturs kemur?
Hefur hið svokallaða DART-verkefni NASA verið rifjað upp en árið 2022 rakst geimfarið DART á smástirnið Dimorphos. Var markmiðið að kanna hvort hægt væri að breyta stefnu smástirnis ef það kynni að stefna á jörðina. Verkefnið gekk upp og töldu margir að þar með hefði mannkynið fundið lausn á þessari hættu.
Andrews segir að málið sé ekki endilega svo einfalt því verkefni af þessari stærðargráðu krefjist margra ára undirbúnings. Segir hann að þegar allt er talið til muni slíkt verkefni taka um tíu ár frá undirbúningi og þar til geimfarið lendir á loftsteininum – ef það þá tekst á annað borð. Í verkefni sem þessu geti margt farið úrskeiðis og það þurfi að hafa mjög hraðar hendur.
Á þessum tímapunkti vita vísindamenn ekki með vissu hversu stór loftsteinninn 2024 YR4 er eða hvernig hann er samsettur. Vísindamenn hafa þó giskað á að hann sé um 90 metrar á lengd. Enn er verið að safna gögnum um hvaða stefnu loftsteinninn tekur og munu vísindamenn hafa gleggri mynd af því áður en langt um líður.
Sjá einnig: Auknar líkur á að 90 metra langur loftsteinn lendi í árekstri við jörðina
Þeim sem hafa áhyggjur er þó bent á að yfirgnæfandi líkur eru á að enginn árekstur verði.
Jótlandspósturinn ræddi í vikunni við Line Drube, stjarneðlisfræðing við DTU, sem sagði að loftsteinninn gæti valdið mikilli eyðileggingu ef til áreksturs kemur en ekki heimsendi.
„Tvö prósent eru ekki hætta sem maður á að líta fram hjá. Það þarf því að halda áfram að fylgjast með braut hans. Annað hvort sjáum við að það dregur úr hættunni eða þá að hún eykst. Þeim mun lengri tími sem líður, þeim mun betur munum við vita hvort hann lendir á okkur eða ekki. Á einhverjum tímapunkti verður líka hægt að segja til um hvar hann lendir ef hann hittir jörðina,“ sagði Line og bætti við að árekstur færi ekki fram hjá neinum.
„Ef hann lendir á byggðu svæði, verða afleiðingarnar mjög miklar. Ef hann lendir í sjónum, getur maður ímyndað sér að hann myndi mikla flóðbylgju. Ég þori ekki að segja til um hversu stór hún gæti orðið en ef hún berst í allar áttir, þá getur þetta orðið mjög alvarlegt,“ sagði hún.
Hey asteroid 2024 YR4 watchers! I’m seeing a lot of people claim that, if it is going to impact Earth in 2032, we can use a DART-like spacecraft to ram it out of the way.
Well, not necessarily. The DART mission was fab, but might not be able to stop 2024 YR4.
Let me explain 👇 pic.twitter.com/JzBfEx2TxG
— Dr Robin George Andrews 🌋☄️ (@SquigglyVolcano) February 11, 2025