fbpx
Miðvikudagur 12.febrúar 2025
Fréttir

Fasteignasala situr eftir með sárt ennið eftir að hafa hundsað útgáfufélag árum saman

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. febrúar 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útgáfufélagið SagaZ ehf. hafði betur í máli sínu gegn Fasteignamiðstöðinni ehf. Málið varðaði grein sem átti að birtast í ritinu ÍSLAND – Atvinnuhættir og menning 2020. Umfjöllun um fasteignasöluna átti að birtast í ritinu en ekkert varð úr því þar sem efninu var aldrei skilað inn, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.

Útgáfan og fasteignasalan gerðu samning í desember árið 2017 um tveggja blaðsíðna umfjöllun um Fasteignamiðstöðina í áðurnefndu riti. Samkvæmt skilmálum samningsins bar fasteignasölunni að skila myndum og texta inn fyrir mars árið 2018. Fram kom í samningnum að greiðsluskylda ætti við jafnvel þó fasteignasalan myndi ekki skila inn efni. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. febrúar.

Gengu á eftir efninu árum saman

Þegar fór að líða að lokum skilafrests sendi útgáfan áminningu á fasteignasöluna en fékk engin viðbrögð. Eftir að skilafrestur rann út var fasteignasölunni send ítrekun, boðinn frestur og jafnframt aðstoð við ritun efnis og ljósmyndun gegn vægu gjaldi. Aftur bárust engin viðbrögð.

Fyrsti reikningur vegna samkomulagsins var gefinn út í apríl 2018 og greiddi fasteignasalan hann. Svo leið og beið. Útgáfan sendi aftur erindi á fasteignasöluna í febrúar 2020. Þar var gefinn kostur á að skila inn efni eða óska eftir lengri fresti. Þá loks komu viðbrögð frá fasteignasölunni en fyrirsvarsmaður hennar hélt því fram að hann hefði í símtali um áramótin 2017 látið vita að hann væri fallinn frá samkomulaginu. Útgáfan lét vita að samningurinn var gerður í desember 2017. Fasteignasalan ítrekaði að hún vildi ekki taka þátt í verkefninu og hefði áður látið vita.

Næst sendi útgáfan tölvupóst í febrúar árið 2022. Þar var aftur ítrekað að ekkert efni hefði borist frá fasteignasölunni en nú væri ritið á lokametrunum og lokatækifæri til að skila inn efni. Minnt var á að greiðsluskylda væri óháð því hvort efni bærist eða ekki.

Lokatilraun til að fá efni var send í júní 2022 og jafnframt bauðst þá útgáfan til að aðstoða, án aukins kostnaðar, við greinaskrif og aftur minnt á greiðsluskyldu. Ekkert kom frá fasteignasölunni.

Síðar árið 2022 kom ritið út og var þar ekki að finna umfjöllun um Fasteignamiðstöðina enda hafði ekkert efni borist frá þeim þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.

Reikningur var svo gefinn út í desember 2022 og sendur í innheimtu. Aftur var gefinn út reikningur, með lægri fjárhæð, í febrúar árið 2023. Samhliða bauðst útgáfan til að taka þá við efni frá fasteignasölunni til að birta í rafrænni útgáfu ritsins. Loks var fasteignasölunni boðinn 30% afsláttur til að hægt væri að ljúka málinu.

Ekkert heyrðist frá Fasteignamiðstöðinni og í mars 2023 var reikningurinn sendur í löginnheimtu. Loks svaraði fasteignasalan innheimtutilraunum lögmanns í maí 2023 og ítrekaði að hún teldi sig ekki bundna af samningnum þar sem munnlega hefði verið fallið frá samkomulaginu. Lögmaður benti á að þetta væri bindandi samningur og óuppsegjanlegur. Greiðsluskylda væri til staðar óháð því hvort efni hefði borist eða ekki.

Útgáfan stefndi svo fasteignasölunni fyrir dóm í mars 2024.

Samninga skal halda og efna

Fasteignasalan hélt því fram að fyrst og fremst hefði verið fallið munnlega frá samkomulaginu og eins hefði útgáfan lofað að sjá um að útbúa efni og redda myndum. Það hafi hún ekki gert. Því hefði útgáfan vanefnt sinn hluta af samkomulaginu og fasteignasalan þyrfti ekki borga. Útgáfan kannaðist þó ekkert við þetta meinta munnlega samkomulag og benti á að í skriflegum samningi hefði ekkert verið tekið fram um að útgáfan tæki að sér að útbúa efnið.

Dómari rakti að hér stæði orð gegn orði. Það sem væri þó fyrirliggjandi væri samningurinn sem var gerður í desember 2017. Þar segir ekkert um að útgáfan ætli að taka að sér að útbúa efnið, þó svo að samningsformið hafi haft slíkan möguleika. Þar væri eins afdráttarlaust kveðið á um að efni skuli berast fyrir ákveðinn tíma og ef það yrði misbrestur á því myndi ekkert efni birtast í ritinu en greiðsluskylda væri engu að síður til staðar. Eins hefði fasteignasalan greitt fyrsta reikninginn og útgáfan hefði þar að auki ítrekað minnt á skilafrest, gefið kost á að skila inn efni eftir að skilafrestur rann út og eins boðið ítrekað fram aðstoð við að ganga frá efninu. Munnlegt samkomulag væri ósannað og eins hefði fyrirsvarsmaður fasteignasölunnar verið fasteignasali og sem slíkur haft mikla reynslu af samningagerð. Hann geti því ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað um hvað hann var að semja.

Dómari vísaði til þess að það væri rótgróin meginregla í íslenskum samningarétti að gerða samninga skuli halda og efna. Þar með bar fasteignasölunni að greiða reikninginn ásamt dráttarvöxtum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt