Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Fasteignafélagið Þórkatla var stofnað fyrir ári síðan og er tilgangur þess að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í Grindavík.
Morgunblaðið ræðir í dag við Telmu Sif Reynisdóttur, lögmann hjá Novum lögfræðiþjónustu, sem segir að fyrirtækið sé meðal annars með mál þar sem Þórkatla hefur ekki viðurkennt kröfur um dráttarvexti vegna greiðsludráttar.
„Þegar greiðsludráttur verður hjá Þórkötlu leiðir það til greiðsludráttar hjá okkar umbjóðendum sem síðan hafa þurft að greiða dráttarvexti til seljenda í sínum fasteignaviðskiptum,“ segir Telma.
Þannig séu dæmi um að Þórkatla hafi gert breytingar á greiðslufyrirkomulagi frá því sem fram kemur í kaupsamningi. Bent er á það í umfjöllun Morgunblaðsins að venjulega sé afsal undirritað og millifærsla framkvæmd á fasteignasölunni samtímis. Þórkatla hafi aftur á móti tekið sér vald til að greiða afsalsgreiðsluna allt að fimm dögum eftir þinglýsingu afsals. Þá leggi félagið til í svokölluðu lögskilauppgjöri að seljendur samþykki að greiðslan dragist.
Segir Telma að ef fólk skrifar undir afsalið og lögskilauppgjörið án þess að skoða textann vel eigi það á hættu að afsala sér kröfu um dráttarvexti á hendur Þórkötlu.
„Þolinmæði okkar umbjóðenda er á þrotum þegar þeir verða fyrir fjártjóni í fasteignaviðskiptum við fasteignafélag, sem ætti að vera sérstaklega meðvitað um skuldbindingargildi samninga,“ segir Telma við Morgunblaðið þar sem ítarlega er fjallað um málið.