FH endaði síðasta tímabil illa og tapaði öllum leikjum eftir að deildinni var skipt upp, að undanskildu jafntefli gegn Val. Þá tapaði liðið gegn ÍR í Lengjubikarnum á dögunum og í vetur hefur mikið verið fjallað um slæman fjárhag félagsins.
„FH-ingar geta alveg lent í veseni, þeir þurfa að styrkja sig,“ sagði Mikael í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Kristján benti þá á að FH hafi rétt náð að bjarga sér frá falli fyrir tæpum þremur árum. „Og liðið í dag er mun verra en þá,“ sagði hann.
Umræðan snerist þá að leikjadagskrá FH í byrjun móts í vor, en hún er ansi strembin.
„í fyrra fóru þeir vel af stað. Slæm byrjun hjá FH, þá getur þetta orðið mjög slæmt. Hjá svona liði er þetta mjög fljótt að fara,“ sagði Mikael.
FH á þrjá útileiki í fyrstu fjórum umferðunum, gegn Stjörnunni og svo eru ferðalög norður til að mæta KA og vestur á Ísafjörð til að mæta Vestra. Einn heimaleikur, gegn KR, er í þriðju umferð.
Við taka svo leikir gegn Val, Víkingi, ÍA og Breiðabliki, áður en liðið mætir ÍBV, Aftureldingu og Fram í lokaleikjum fyrri umferðar.