Slæm tíðindi hafa borist úr herbúðum Arsenal, sem nú æfir í Dúbaí til að safna kröftum fyrir átökin á síðustu mánuðum tímabilsins á Englandi.
Daily Mail greinir frá því að Kai Havertz hafi meiðst á æfingu fyrr í vikunni. Kemur einnig fram að menn hafi töluverðar áhyggjur af meiðslunum. Bendir margt til þess að þau séu aftan á læri, sem gæti þýtt að Þjóðverjinn verði frá í einhvern tíma.
Arsenal er þegar með nokkra lykilmenn fjarverandi vegna meiðsla. Má þar nefna Bukayo Saka, Gabriel Martinelli, Gabriel Jesus og Ben White.
Havertz gekk í raðir Arsenal í fyrra og hefur heilt yfir staðið sig vel í rauðu treyjunni. Á þessari leiktíð er hann með 15 mörk og 5 stoðsendingar í öllum keppnum.
Arsenal er í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar við Liverpool, sem er þó með 6 stiga forskot og á þar að auki leik til góða, gegn Everton annað kvöld.