Kennarinn, sem heitir Liam Knight“ var þvoglumæltur, með blóðhlaupin augu og gat ekki einbeitt sér eða haldið áttum þegar hann var að kenna ungum börnum sund í Drayton Junior School, sem er nærri Norwich í Norfolk á Englandi.
Þetta kom fram þegar mál hans var tekið fyrir hjá eftirlitsnefnd með kennurum. Þar kom einnig fram að rósavínsflaska, sem Knight hafði drukkið úr, hafi fundist inni á salerni kennara eftir að gripið var inn í atburðarásina í sundlauginni.
Knight hóf störf við skólann í september 2023 og aðeins mánuði síðar tók hann áfengi með í vinnuna. Þess utan tók hann lyf sem hann skýrði yfirmönnum sínum ekki frá. Þessi lyf gerðu hann sljóan.
Knight viðurkenndi að hafa tekið lyfin sína og drukkið áfengi áður en sundkennslan hófst. Hann sagðist ekki muna nákvæmlega hversu mikið hann hefði drukkið en líklega hefði hann drukkið af stút.
Þegar kennslustundin hófst var hann óstöðugur á fótunum, átti í erfiðleikum með að tala skýrt og gat ekki einbeitt sér eða haldið áttum. Hann játaði að hafa ekki verið í ástandi til að kenna sund.