Að verða foreldri í fjórða skiptið er gleðihögg, en högg engu að síður. Þegar Ragnheiður Vernharðsdóttir varð ólétt af fjórða barninu tók hún upp viðbrögðin hjá föðurnum, Tommy Ravnaas, og birti á samfélagsmiðlum. Viðbrögðin hafa vakið mikla athygli.
Fjallað er um myndbandið sem Ragnheiður, eða Ragna eins og hún er kölluð, tók í bandaríska tímaritinu Newsweek. Myndbandið tók hún fyrir um tveimur árum síðan, þegar hún komst að hún væri ólétt af fjórða barninu, en birti það nýlega á TikTok síðunni sem hún heldur úti, sem kallast „Baby Let´s Move.“
Ragna og Tommy er búsett í Noregi en þar starfar hún sem læknir og líkamsræktarþjálfari. Auk þess að vera TikTok síða er „Baby Let´s move“ vefsíða og app til að hjálpa verðandi og nýbökuðum mæðrum að komast í form.
Myndbandið hefur vakið nokkra athygli enda eru viðbrögðin við tíðindunum kostuleg.
„Við vorum búin að vera að kljást við ófrjósemi í langan tíma áður en við áttum okkar þriðja. Hún var aðeins eins árs og enn þá á brjósti og tíðahringurinn var ekki kominn aftur í gang, þannig að ég vissi ekki að ég væri orðin frjó aftur,“ sagði Ragna í viðtali við Newsweek. „Vitaskuld vissi ég að þetta væri möguleiki, en í raun og veru héldum við að þetta myndi ekki gerast svona auðveldlega í ljósi okkar fyrri erfiðleika.“
Ragna og Tommy komust að óléttunni eftir helgarferð þar sem þau voru að fylgjast með elsta syninum keppa í go-kart.
„Ég var að baða þá eins árs og bursta tennurnar þegar mér varð allt í einu óglatt. Ég átti gamalt óléttupróf inni í skáp og ákvað að taka það… og þá bara bamm – Jákvætt!“ sagði Ragna.
Vildi hún festa þessa stund á filmu og kallaði í manninn sinn og viðbrögðin má sjá í myndbandinu.
@baby.lets.move How did you break the news to your man? 🤭🤰🏻 Our fourth was a total surprise!! #pregnancy #pregnancyannouncement #babyletsmove #babyletstalkpodcast #surprisepregnancy #prenatalhealth #prenatalfitness #pregnancyfitness #prenatalwellness #baby ♬ Oh No – Kreepa
„Ha?…………Þú ert ekki ólétt?……….Nei!!……..Hættessu!“ segir Tommy greinilega sleginn út af laginu.
„Eiginmaður minn verður sjaldan orðlaus,“ sagði Ragna í viðtalinu. Eftir að hann hafi gengið út úr herberginu hafi hann komið strax inn aftur og verið ekkert nema spenntur fyrir því að halda áfram að byggja fjölskylduna.
Sagði Ragna að líf fjögurra barna móður gæti verið erfitt á köflum en að hún sé ávallt með það í huga að búa til rými fyrir gæðastundir með eiginmanni sínum og fyrir sig sjálfa. Svo sem í líkamsrækt, sjálfsrækt og áhugamálum.
Einnig nefnir hún að húmorinn skipti máli sem og að gera sér grein fyrir því að það þurfi ekki alltaf allt að vera fullkomið.
„Mitt ráð til allra sem eru að hugsa um að búa til stóra fjölskyldu er að taka á móti óreiðunni og finna gleðina í ringulreiðinni,“ sagði Ragna að lokum.