Nokkuð er liðið síðan breski grínistinn John Oliver sagði skilið við þáttinn The Daily Show með Jon Stewart. Hann sneri þó aftur í gær til að bjóða Bandaríkin velkomin á einveldistíma sinn, eftir árangurslausa tilraun til að viðhalda lýðveldinu.
Jon Stewart var að venju að fara yfir málefni líðandi stundar og rakti að það væru vísbendingar um að lýðveldisárum Bandaríkjanna sé lokið, en Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist telja sig óbundinn af stjórnarskrá landsins og reglum réttarríkisins.
Áður en Stewart náði að klára mál sitt mátti heyra hægt klapp. Þar var Oliver mættur með skilaboð til bandarísku þjóðarinnar.
„Ég er kominn hingað til að hlakka yfir misförum ykkar. Bandaríkin, þið eruð búin að hlaupa af ykkur hornin, er það ekki, með þessa lýðræðistilraun ykkar. Þið börðust svo hart til að sleppa undan okkur, voruð óþekk og helltuð niður öllu þessu tei við höfnina. Þið skuldið okkur enn fyrir það, svo það komi fram.“
Oliver segir að þegar Bandaríkin fengu sjálfstæði frá Bretlandi hafi þjóðin verið staðráðin í því að verða ekki eins og fyrrum drottnari sinn. Ekkert einveldi í Bandaríkjunum heldur lýðræði.
„Þið ætluðuð ekki að enda eins og vondi gamli pabbi ykkar sem var svo ömurlegur við ykkur í frumbernsku landsins. Svo við stigum til baka. Við leyfðum ykkur að eyða villtu unglingsárunum í þessa tilraunastarfsemi með skiptingu valds og aðhaldi, því við vissum innst inni að þegar þið væruð búin að koma þessu út úr kerfinu ykkar, þá kæmuð þið skríðandi til baka.“
Oliver bauð Bandaríkin velkomin til baka.
„Ég ætla mér fyrstur manna að bjóða Bandaríkin velkomin á einveldistíma sinn. Til hamingju öll. Þið getið nú fengið ykkur sæti með öllum heimsveldunum, við hlið breska heimsveldisins, rómverska, klingon-stórveldisins, Wakanda, og svo hvað sem fíllinn Babar ríkti yfir.“
Stewart sagðist þó ekki viss um að bandaríska lýðveldið hefði sungið sitt síðasta þó að það sé í vanda statt. Oliver sagði ástæðulaust að óttast einveldi. Það sé svo skilvirkt að hafa bara einn mann sem ræður öllu.
„Ég er bara að segja ykkur að berjast ekki gegn því að verða einveldi. Takið því fagnandi. Kóngar koma hlutunum í verk. Eru þetta hlutir sem þið viljið að sé komið í verk? Ekkert endilega, en þeir eru snöggir. Þeir smakka kúmen í hádeginu og hafa tekið yfir heila heimsálfu fyrir kvöldverðartíma. Þannig rúlla Bretarnir Jon. Til fjandans með alla aðra. Þeir eru ekki eins og við.“
Stewart minnti þó á að það væri nú ekki hægt að tala um breskt heimsveldi lengur. Oliver sármóðgaðist:
„Hvernig dirfist þú? Við erum tæknilega á milli heimsvelda sem stendur. En við höldum köstulum okkar heitum og gimsteinunum í krúnudjásnum okkar svo þau séu tilbúin daginn sem við komum fótunum undir okkur aftur. “
Oliver tók eins fram að þótt Bandaríkin segist ekki vilja verða heimsveldi með einráðum leiðtoga þá virðist hljóð og mynd ekki fara saman.
„Hefurðu séð eitthvað af því sem Bandaríkin hafa gert síðustu 50 árin? Fyrir þjóð sem segist ekki vilja verða heimsveldi eruð þið að standa ykkur fjandi vel í að herma eftir þjóðum sem vilja slíkt. Innrásir, misnotkun efnahags og nú eruð þið að leggja til að breyta Gaza-ströndinni í spilavíti við ströndina? Jafnvel Georg konungur hefði sagt: „Ég veit ekki alveg með þetta krakkar, mér finnst þessar aðstæður ögn flóknari en það og ég er bókstaflega að deyja úr miðaldaheilasjúkdómi“. Það er satt, hann var að drepast úr því. Hann gerði hann bilaðan en hann hefði samt séð að þetta sé óraunhæf krafa.“
Stewart fórnaði þá höndum og viðurkenndi að Bandaríkin væru lítið skárri en Bretland. Þau væru sannarlega farin að líkjast föður sínum.
Oliver sagði ástæðulaust að gráta það: „Ekki vera leið. Við gætum ekki verið stoltari. Þetta er ekki sorgartími. Bogi sögunnar er svo strekktur að loks verður hann að hring og þið endið aftur á upphafspunkti. Þið gætuð jafnvel kallað þetta hringrás lífsins. “