Ljóst er að mikið hefur gengið á í Grafarvogi undanfarna mánuði sem varð til þess að Úlfur Arnar Jökulsson var rekinn úr starfi sem þjálfari Fjölnis í Lengjudeild karla í gær.
Kjaftasagan um að reka ætti Úlf úr starfi fóru að heyrast um liðna helgi, það var svo staðfest í frétt Fótbolta.net í gærkvöldi.
Úlfur skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Fjölni síðasta haust en þá hafði framtíð hans verið til umræðu, mikið af fólki sem starfaði fyrir félagið og í kringum það hafði sett út á hans störf.
Stjórn knattspyrnudeildar Fjölnis tók þá ákvörðun að standa með Úlfi enda hafði árangurinn innan vallar síðustu ár verið með ágætu móti, liðið verið nálægt því að fara upp í Bestu deildina.
Starfsliðið sem Úlfur hafði haft hætti svo gott sem allt á einu bretti síðasta haust, aðstoðarþjálfarinn, markmannsþjálfarinn, styrktarþjálfarinn og liðsstjórar létu af störfum.
Erfið samskipti Úlfs við teymið var sögð helsta ástæða þess að þessir aðilar vildu ekki starfa lengur í teymi hans. Stjórnin taldi hins vegar Úlf vera á réttri leið og fékk hann fullt traust í október.
Sú ákvörðun að fara í breytingar núna vekur verulega athygli, stutt er í að Íslandsmótið fari af stað. „Heimildarmaður Fótbolta.net segir að ákveðin deyfð hafi verið yfir liðinu, stemningsleysi og óánægja með umgjörð. Stjórnin hafi talið sig knúna til að taka þessa ákvörðun,“ sagði í frétt Fótbolta.net í gærkvöldi.
Fjölnir reynir nú að ráða Gunnar Má Guðmundsson þjálfara Þróttar Vogum til starfa en hann er goðsögn í Grafarvogi eftir feril sinn sem leikmaður þar.
Ofan á þessar vendingar í þjálfaramálum bætist við gríðarlegir fjárhagsörðugleikar Fjölnis en félagið hefur verið rekið með miklu tapi síðustu ár.