fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. febrúar 2025 22:00

Stefán Einar Stefánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamanninum Stefáni Einari Stefánssyni er fátt óviðkomandi og hann er duglegur að láta í sér heyra víða á samfélagsmiðlum. Á dögunum gerði hann allt vitlaust inn í Facebook-hópnum Skólaþróunarspjallið en þar kom hann vini sínum í Viðskiptaráði til varnar og jós skömmum yfir hóp kennara sem tóku hraustlega á móti.

Selur sveitarfélögum gögn varðandi líðan kennara í starfi

Forsaga málsins er sú að Viðskiptaráð hefur verið duglegt að blanda sér inn í umræður um kaup og kjör kennarastéttarinnar hér á landi. Hefur ráðið meðal annars bent á að grunnskólakerfið hér á landi sé dýrt á alþjóðlegan mælikvarða, kennsluskylda lítil og veikindi algeng, svo fátt eitt sé nefnt, við litlar vinsældir kennara.

Þar hefur framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Björn Brynjúlfur Björnsson, verið í fararbroddi.

Ófriðarbálið inni á áðurnefndum Facebook-hóp hófst þegar kennari nokkur benti á að Björn Brynjúlfur er eigandi fyrirtækisins Moodup sem selur aðgengi að mannauðs mælaborði sem m.a. sveitarfélög kaupa. Á tveggja mánaða fresti taka starfsmenn sveitarfélaga, sem að mestu eru kennarar sem starfa í leik-, grunn- og tónlistarskólum, könnun um líðan sína í starfi. Moodup tekur þessi gögn síðan saman og selur sveitarfélögum fyrir dágóðan skilding.

„Eru kennarar alveg sáttir við það að stuðla að hans aurasöfnun þegar hann gerir ekki annað en að tala okkur og okkar störf niður?“ spurði þá umræddur kennari um fyrirtæki Björns Brynjúlfs.

„Mér finnst hins vegar viðbjóðslegt, og lýsa ótrúlegu innræti að ætla að eyðileggja fyrir þessu fyrirtæki“

Einhverjar umræður urðu um færsluna en tæpri viku síðar var Stefán Einar mættur í varnarbaráttuna.

„Frábært að sjá kennara reyna að rústa öflugt fyrirtæki sem veitir góða þjónustu vegna þess að þeir eru ósammála málflutningi tiltekins manns. Er þetta kennarastéttinni samboðið?“ skrifaði fjölmiðlamaðurinn og skvetti þar með olíu á eld sem var nánast slökknaður.

Var Stefán Einar í kjölfarið spurður hvort að það væri ekki grunngildi kapítalismans að kennarar mættu velja hvaða fyrirtæki þjónustaði þá.

„Ég er ekki að segja það galið að fólk velji og hafni. Að sjálfsögðu gerir það það. Mér finnst hins vegar viðbjóðslegt, og lýsa ótrúlegu innræti að ætla að eyðileggja fyrir þessu fyrirtæki vegna þess að einn af hluthöfum þess stendur ekki og situr að vilja kennara,“ skrifaði Stefán Einar þá.

Gamall kennari tuktaði óþekka skólastrákinn til

Mætti þá til sögunnar Margrét nokkur Ásgeirsdóttir, gamall kennari eins og hún titlaði sig og lagði orð í belg.

„Þú ert öflugur við að tjá þínar skoðanir og enginn bannar þér það. Við kennarar menntuðum okkur til starfs þar sem við höfum ekkert val um við hverja við skiptum, mjög skert málfrelsi (+þagnarskyldu) þegar kemur að skjólstæðingum okkar og foreldrum þeirra, höfum ekki náð millitekjum alla starfsævina þrátt fyrir langskólanám og höfum áratuga reynslu af baráttu við vindmyllur, getum valið hvort við eyðum dýrmætum og skertum tíma okkar til undirbúnings kennslu við að gera ungan kall út í bæ ríkan með löngum spurningalistum sem skipta engu máli fyrir okkur og skjólstæðinga okkar.
Nú skaltu sína eldri borgara á lélegum eftirlaunum eftir starfs-og námsferil í leik- og grunnskólakennslu sem spannar hálfa öld þá virðingu að svara ekki með strákslegu skítkasti.“

Þrátt fyrir tilmælin fór Stefán Einar þegar í leðjuslag:

„Margrét Ásgeirsdóttir þessi ummæli dæma sig einfaldlega sjálf. Hverskonar geðrof er það að halda því fram að það geri „ungan karl“ ríkan að þessum spurningum sé svarað? Þessar kennanir eru keyptar til þess að reyna að bæta starfsumhverfi og vinnustaðamóral. Þetta er gæðamæling. En maður hefur svosem séð hvernig kennarar bregðast við umræðu um gæðamælingar eins og Pisa. Það er engu líkara en að þessi stétt sé orðin algjörlega rökþrota og geti ekki horfst við að kerfið og skipulagið er komið í þrot um leið. Björn Brynjúlfur hefur bent á hugmyndir til þess að bæta þar úr og það sem hann fær yfir sig frá rugludöllunum er að þeir vilja setja fyrirtæki sem hann á á hausinn. Ég vil ekki að fólk sem svona hugsar komi nálægt börnunum mínum. Ég vil að það sé fólk með betra innræti sem vinni með þeim á mikilvægu mótunarskeiði í þeirra lífi,“ skrifaði Stefán Einar.

Þráðurinn var lengri og gusurnar enn verri en að lokum spurði kollegi Margréti hvernig hún nennti að munnhöggvast við Stefán Einar.

„Ég hef verið veik og mér leiðist. Kemst ekki í Kraft í KR fyrir eldri borgara, sund og golfhermi. Stefán er bara eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur. Áskorun fyrir gamlan kennara sem er enn með rökhugsun,“ skrifaði Margrét og sló þar með botn í netrifrildið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hversu oft má nota bökunarpappír?

Hversu oft má nota bökunarpappír?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Hollendingar nappaðir í Leifsstöð

Tveir Hollendingar nappaðir í Leifsstöð