Vladímír Pútín og hans fólk er sagt hafa sérstaklega mikinn áhuga á Svíunum sem taka nú í fyrsta sinn þátt í verkefni af þessu tagi á vegum NATÓ.
Expressen skýrir frá þessu og segir að þar sem þetta sé fyrsta verkefni Svía af þessu tagi eftir inngönguna í NATÓ, þá hafi rússneska leyniþjónustan sérstaklega mikinn áhuga á þeim. Byggir miðillinn þetta á hættumati sem var unnið af leyniþjónustu sænska hersins. Í henni kemur fram að sænsku hermennirnir og það sem þeir gera, sé eitthvað sem rússneska leyniþjónustan muni hafa áhuga á.
Sænska herdeildin, sem er í Lettlandi, hefur áður starfað í Afganistan og Malí og eru hermennirnir að sögn vanir hættunum sem steðja að þeim frá erlendum leyniþjónustum. „En hér glímum við við enn betri leyniþjónustu,“ sagði Marcus Nilsson, upplýsingafulltrúi herdeildarinnar, í samtali við Expressen.
Af þessum sökum hafa yfirmenn herdeildarinnar ákveðið að grípa til aðgerða til að draga úr hættunni á að rússneskir útsendarar hafi uppi á sænsku hermönnunum og/eða fái þá til að ganga til liðs við Rússa.