Bryndís Klara Birgisdóttir var 17 ára gömul þegar hún særðist lífshættulega í hnífstunguárás á Menningarnótt í fyrra, þann 24. ágúst. Hún lést sex dögum síðar, þann 30. ágúst.
Gerandinn er piltur sem var 16 ára og var hann ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Þingfesting var í málinu 28. nóvember og hefur gerandinn játað sök. Héraðssaksóknari krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd aðstandenda Bryndísar Klöru er gerð krafa um miskabætur upp á 17 milljónir króna til handa hvors foreldris hennar, samtals 34 milljónir.
Sjá einnig: Ákæra birt gegn piltinum sem banaði Bryndísi Klöru
Foreldrar Bryndísar Klöru, Iðunn Eiríksdóttir og Birgir Karl Óskarsson, stigu fram í viðtali við Sunnu Sæmundsdóttur í Kompás í kvöld. Frétt um viðtalið má einnig lesa hér á Vísi.
Í viðtalinu lýsa þau dóttur sinni, eiginleikum hennar og kærleika, segja frá örlagadeginum og atburðarrásinni á eftir, baráttunni á spítalanum og sorginni sem þau reyna að beina í kærleiksríkan farveg, eins og sagði í kynningu á viðtalinu á Vísir.
„Hún var yndisleg. Hún hafði eitthvað ljós yfir sér sem margir töluðu um. Hún var ofboðslega góð við alla og hjálpsöm,“ segir Iðunn. „Hún gaf okkur óendanlega mikið þessi 17 ár og við erum einstaklega þakklát fyrir þessi 17 ár, þó þetta sé ógeðslega erfitt,“ segir Birgir.
Móðir hennar segir Bryndísi Klöru hafa langað mjög til að fara í bæinn á Menningarnótt, þrátt fyrir að hún hafi lofað sér í vinnu daginn eftir. Þær mæðgur hafi skilið við hvor aðra, knúsast og móðir hennar horft á eftir henni. „Svo sá ég hana næst á sjúkrahúsinu, meðvitundarlausa.“
Bryndísi Klöru og vinkonu hennar bauðst far heim með hinum ungmennunum sem í bílnum voru. Faðir hennar segir einhvern aðdraganda hafa átt sér stað, sem dóttir hans hafi ekki vitað um, hún og gerandinn hafi aldrei hist áður.
Gerandinn var fyrrverandi kærasti einnar stúlkunnar í bílnum og hafði elt hana gegnum staðsetningarapp í síma sínum. Atburðarásin var hröð og tók aðeins nokkrar mínútur og um hálftólf var árásin yfirstaðin.
Faðir Bryndísar Klöru segir gerandann hafa byrjað árásina frammi í bílnum, Bryndís Klara og vinkona hennar hafi komist úr bílnum og í skjól. Gerandinn hafi þá ráðist á stúlku í aftursætinu, Bryndís Klara hafi þá snúið til baka og reynt að toga hann úr bílnum. „Hann snýr sér við og nær þessari einu stungu á versta stað,“ segir Birgir.
Pilturinn réðst auk Bryndísar Klöru á tvö önnur ungmenni sem krefjast hvort um sig átta milljóna í miskabætur. Annar piltur sem var með ungmennunum þremur krefst fimm milljóna.
Samkvæmt ákærunni átti árásin sér stað á bílastæði við Skúlagötu í Reykjavík en fjórar ungar manneskjur sátu í bílnum er ákærði kom þar að og braut hliðarrúðu bílsins. Hann veittist ítrekað að pilti sem var í bílnum með hnífi og stakk hann í öxl og brjóstkassa. Bryndís Klara flúði þá út úr bílnum ásamt öðrum farþega. Ákærði gerði tilraun til að svipta stúlku sem sat þá enn í bílnum lífi með því að stinga hana í öxl, handlegg og hendi. Hann veittist síðan að Bryndísi Klöru með hnífi fyrir utan bílinn. Stakk hann hana í eitt skipti í holhönd og náði stungan í gegnum hjartað og inn að lifur. Pilturinn og stúlkan hlutu töluverða áverka af árás ákærða en Bryndís Klara lést af völdum áverka sinna sex dögum síðar.
Bryndís Klara fór í hjartastopp eftir árásina en var hnoðuð í gang á vettvangi. Í aðgerðinni á Landsspítalanum fór hún aftur í hjartastopp, og var á endanum sett í ECMO-vél.
„Þetta var bara eins og stríðsvöllur. Komu þrjú börn inn með hættulegar stungur,“ segir Birgir, sem segir nánar frá dvöl dóttur sinnar á spítalanum í Kompásþættinum. „Örlögin voru ráðin á Skúlagötu.“
Gerandinn var handtekinn á heimili sínu skömmu eftir árásina, ásamt forráðamönnum hans, eins og kom fram í Kompás og frétt á Vísi í kjölfarið. Þau voru grunuð um að hafa komið sönnunargögnum undan og hylmt yfir glæpinn. Þau sendu hann í sturtu þegar hann kom heim, settu föt hans í þvottavél og komu hnífnum undan. Hnífurinn fannst í bakpoka í aftursæti í bíl forráðamanns hans. Þau lugu einnig í yfirheyrslum hjá lögreglu. Mál þeirra var sent til héraðssaksóknara en síðar fellt niður vegna fjölskyldutengsla við gerandann.
„Ég skil þetta en samt ekki. Ég hefði ekki brugðist svona við. Mér finnst þetta svolítið eins og öfug umhyggja,“ segir Birgir.
Foreldrar Bryndísar Klöru segir sorgina óbærilega, en með minningarsjóð í hennar nafni geti þau haldið minningu hennar á lofti og látið eitthvað gott af sér leiða.
„Okkar eina ljós er að þetta geti orðið til einhvers. Það er ekkert annað gott sem getur komið út úr þessu nema þetta bjargi einhverjum mannslífum,“ segir Birgir. „Ég held það sé ekki hægt að lýsa þessu, þetta er bara það hræðilegasta sem maður getur lent í sem foreldri,“ segir Iðunn.
„Við munum alltaf lifa með því að hafa misst hana á eins ósanngjarnan hátt og hægt er. Ég vissi bara að það hefði verið út af því að hún var allt of góð. Því hún var allt of góð. Bryndís fer til baka og er að toga í hann út úr bílnum. Hann snýr sér við og nær þessari einu stungu, á versta stað.“
Horfa má á viðtalið við foreldra Bryndísar Klöru hér. Við hvetjum fólk til að horfa, málefnið skiptir okkur öll máli.