Eins og DV skýrði frá í gær, þá hefur NASA uppfært hættumat sitt varðandi líkurnar á árekstri loftsteinsins við jörðina úr 1,3% í 2,3%.
Auknar líkur á að 90 metra langur loftsteinn lendi í árekstri við jörðina
Það virðist kannski ekki svo alvarlegt að líkurnar á árekstri séu taldar vera 2,3% en það er rétt að hafa í huga að aðeins einu sinni áður á þeim 30 árum sem hættumatsmælikvarðinn, sem er á bilinu 1 til 10, hefur verið notaður hefur hættan verið metin meiri.
En hvað gerist ef svo illa fer að loftsteinninn lendi í árekstri við jörðina okkar? Jótlandspósturinn spurði Line Drube, stjarneðlisfræðing við DTU, um það og það stóð ekki á svari:
„Hann getur valdið mikilli eyðileggingu en ekki heimsendi. Tvö prósent eru ekki hætta sem maður á að líta fram hjá. Það þarf því að halda áfram að fylgjast með braut hans. Annað hvort sjáum við að það dregur úr hættunni eða þá að hún eykst. Þeim mun lengri tími sem líður, þeim mun betur munum við vita hvort hann lendir á okkur eða ekki. Á einhverjum tímapunkti verður líka hægt að segja til um hvar hann lendir ef hann hittir jörðina.“
Slíkur árekstur myndi ekki fara fram hjá mörgum og skiptir þá engu hvar loftsteinninn myndi lenda.
„Ef hann lendir á byggðu svæði, verða afleiðingarnar mjög miklar. Ef hann lendir í sjónum, getur maður ímyndað sér að hann myndi mikla flóðbylgju. Ég þori ekki að segja til um hversu stór hún gæti orðið en ef hún berst í allar áttir, þá getur þetta orðið mjög alvarlegt,“ sagði hún.
Hún benti einnig á að ef til áreksturs kemur, þá muni það hafa mikil áhrif á loftslagið á jörðinni því mikið efni og ryk muni þyrlast upp í gufuhvolfið. Hins vegar sé erfitt að segja til um afleiðingarnar.
Enn er ekki hægt að segja til um hvar loftsteinninn mun lenda á jörðinni, ef til áreksturs kemur, en Drube sagði að það fáum við væntanlega að vita á næstu árum.
Christina Toldbo, stjarneðlisfræðingur, sagði í samtali við TV2 að miðað við núverandi upplýsingar sé langlíklegast að braut loftsteinsins muni liggja yfir Suður-Ameríku, Afríku, Kína og Indland, ef hann lendir í árekstri við jörðina.