Dagmar Agnarsdóttir sló á sunnudag sex heimsmet á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum (European Masters Classic Powerlifting Championship), sem haldið var í Albi í Frakkandi.
Dagmar, sem æfir hjá Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur, keppti á mótinu fyrir Íslands hönd í flokki 70 ára og eldri. Varð hún önnur stigahæsta konan á mótinu yfir alla þyngdarflokka.
Hún sló heimsmetið í hnébeygju í sínum flokki þrisvar og setti jafnframt Íslandsmet í hnébeygju í þremur aldursflokkum. Þá lyfti Dagmar 40 kg í bekkpressu og sló heimsmet í réttstöðulyftu og tvívegis í samanlögðum árangri (260,5) sem er jafnframt Evrópumet og einnig Íslandsmet í tveimur flokkum.
Dagmar varð með árangri sínum heimsmethafi í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðum árangri í kraftlyftingum í flokki 70 ára og eldri, -57 kg.
Dagmar hefur stundað kraftlyftingar um árabil og keppt í greininni með Kraftlyftingarfélagi Reykjavíkur – Kraftfélaginu og fyrir Íslands hönd erlendis, en setti á þessu móti sín fyrstu alþjóðlegu met.
Upptöku frá keppninni má sjá hér að neðan: