Lögin sem tóku þátt á laugardaginn voru Frelsið Mitt með Stebba JAK, Ég flýg í storminn með BIRGO, Eins og þú með Ágústi, Norðurljós með BIU, og RÓA með VÆB.
Undanúrslitakvöldin eru tvö, fyrra kvöldið var á laugardaginn og næsta verður laugardaginn 15. febrúar. Þrjú lög af fimm komast áfram í úrslit í gegnum símakosningu. Það verða því sex lög sem keppa á úrslitakvöldinu en þá mun niðurstaða alþjóðlegar dómnefndar vega helming á móti símaatkvæðum almennings.
Lögin þrjú sem komust áfram á laugardaginn voru Frelsið Mitt, Eins og þú og RÓA. Það virtist koma mörgum á óvart að Ég flýg í storminn með BIRGO hafi ekki komist áfram. BIRGO er listanafn söngkonunnar Birgittu Ólafsdóttur.
Málið var meðal annars rætt í Facebook-hópnum Júróvisjón 2025.
„Á maður að trúa því að svona flutningur komist ekki, þó í það minnsta, áfram á úrslitakvöldið ? Bara á Íslandi, er það ekki hægt og Júróvision heimurinn er í sjokki,“ sagði maðurinn sem hóf umræðurnar.
Yfir 150 manns hafa brugðist við færslunni og yfir hundrað athugasemdir hafa verið ritaðar við hana. Fólk virðist hafa mjög sterka skoðun á þessu.
„Dómnefnd á að koma aftur í undanúrslitin! því þarna fleygðu við alvöru TALENT út um gluggann!!! Þetta er bara „hver á flestu vinina“ keppnin. Þessi þjóð á hana ekki skilið! #justiceforbirgo,“ sagði einn netverji.
„Ég bara skil ekki hvernig þetta atriði komst ekki áfram!? Skar áberandi fram úr, með fullri virðingu fyrir öðrum keppendum. Ég bara á ekki til orð,“ sagði annar.
Hér má sjá fleiri athugasemdir, en þetta er aðeins brot af þeim:
„Birgitta var lang best að mínu mati í kvöld og átti svo sannarlega skilið að komast áfram.“
„Ótrúlega svekkt að hún komst ekki áfram! Þetta var virkilega flott atriði.“
„Birgó var laaaaaaaaaangbest, gæsahúð yfir háa c’inu hjá henni.“
„Laaaaaaang besta lagið og ég er mjög hissa. Auðvitað kaus ég hana og finnst algjör skandall ef að hún verður ekki með á lokakvöldinu.“
Einn meðlimur velti fyrir sér hvort kosningin hafi eitthvað klikkað.
„Þetta var langbesta lagið og langbesti flutningurinn, fékk mörgum sinnum gæsahúð. Ég las á annarri síðu að atkvæði hafi ekki komist í gegn og að það hafi komið villa bæði í appi og þegar hringt var. Sumir gátu kosið hana og aðrir ekki. Þannig það hafa farið færri atkvæði í gegn heldur en að hún raunverulega fékk.
Mér finnst algjörlega galið að hún hafi ekki farið áfram, því þarna er í fyrsta skipti í langan tíma raunverulegur möguleiki fyrir okkur að ná langt í aðalkeppninni, frá því að Jóhanna Guðrún fór út fyrir okkur og landaði öðru sætinu.“
En það eru ekki aðeins íslenskir Eurovision-aðdáendur sem eru hissa, heldur aðdáendur úti í heimi. Ljósmyndarinn og áhrifavaldurinn Helgi Ómarsson vakti athygli á umræðunni utan landsteina í Story á Instagram í gær. „Þetta er smá vandræðalegt,“ sagði hann.
Eins og má sjá á skjáskotunum hér að neðan vönduðu sumir Íslandi ekki kveðjurnar. Athugasemdirnar – sem eru yfir 400 – voru ritaðar við myndband RÚV á YouTube af flutningi BIRGO á laugardaginn. Margir virtust sammála því að lag BIRGO hefði getað komist langt í Eurovision, sumir segja alla leið á toppinn.
„Haha, Ísland, þið eruð gjörsamlega klikkuð. Þetta lag var það besta hjá ykkur og í topp fimm af lögunum í Eurovision í ár. Þið verðskuldið ekki þetta meistaraverk,“ sagði einn.
„Ég mun hunsa Ísland í ár. Núll stig! Hversu ósanngjarnar niðurstöður,“ sagði annar.
Einn netverji sagði að BIRGO hafi verið rænd. „Ég trúi ekki að þetta hafi gerst, svo mikil vonbrigði,“ sagði hann.
„Ísland fór úr topp tíu í 37. sæti,“ sagði einn.
„Hvernig komst þetta ekki áfram í úrslit? Hata Íslendingar sig sjálfa?“ sagði annar.