fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Fréttir

Össur segir Stefán Einar hafa komið í veg fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í borginni – Stefán svarar fullum hálsi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 13:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson fyrrum ráðherra segir að fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson hafi bjargað Reykjavíkurborg frá Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðismenn geti þakkað Stefáni fyrir að fá áfram að hanga í minnihluta, þó að Össur reikni með því að oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, Hildur Björnsdóttir, kunni honum litlar þakkir fyrir þetta afrek. Stefán Einar hefur svarað Össuri með því að afturkalla boð til fyrrum ráðherrans um að koma í Spursmál.

Össur skrifar á Facebook um „björgunarafrek siðfræðingsins“.

„Siðfræðingurinn á Mogganum er líklega meiri örlagavaldur í núverandi atburðarás í Ráðhúsinu en við blasir við fyrstu sýn. Hann hefur staðið fyrir einbeittu og óvægnu einelti Moggans gegn Flokki fólksins, og Ingu Sæland sérstaklega.“

Össur vísar þar til harðrar framgöngu Morgunblaðsins gegn Flokki fólksins undanfarna mánuði en þar hefur Stefán spilað stórt hlutverk með hlaðvarpi sínu Spursmál. Framganga miðilsins varð meðal annars til þess að einn þingmaður Flokks fólksins, Sigurjón Þórðarson, velti því fyrir sér hvort það væri eðlilegt að „blað fámennrar klíku auðmanna“ fengi styrki frá ríkinu.

Össur segir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafi nú hefnt sín með því að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk í borginni. Þetta hafi komið mörgum á óvart enda hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins átt í góðu samstarfi í minnihlutanum. Því mætti þakka Stefáni fyrir að svo fór sem fór.

„Inga borgaði fyrir sig með því að stökkva fram svo að segja í upphafi þessarar kaótísku uppákomu sem enn stendur yfir og lýsa því að aldrei skyldi Sjálfstæðisflokkurinn þrífast í meirihluta með stuðningi síns flokks.

Það kom mörgum í opna skjöldu í ljósi þess hve náið virtist oft með Sjöllum og þeim borgarfulltrúa Flokks fólksins, sem nýlega flutti sig yfir götuna og settist á þing. Stefáni Einari má því þakka að Sjallar munu áfram kúldrast í angist valdalauss minnihluta við stjórnun borgarinnar. Hann má því kalla bjargvætt nýs meirihluta til vinstri, sem gæti lifað nokkur kjörtímabil. Ólíklegt er þó að Hildur Björnsdóttir sendi honum blómakörfu fyrir björgunarafrekið.“

Hildur Björnsdóttir segir í samtali við Vísi í dag að hljóðið hafi verið gott hjá Flokki fólksins á föstudag og í gær. Oddviti flokksins í Reykjavík, Helga Þórðardóttir, hafi haft umboð til að fara í viðræður. Greinilega hafi svo eitthvað gerst. „Svo gerist bara eitthvað í gærdag. Það eiga sér stað einhverjir fundir í grasrót flokksins sem hefur þessi áhrif.“

Hildur segir þetta hafa komið á óvart enda það hafi vissulega verið „hamagangur í þinginu og ákveðin umfjöllun um Flokk fólksins á síðum miðlana, en það er auðvitað ekkert sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir og allra síst borgarstjórnarhópur Sjálfstæðisflokksins.“

Skýtur föstum skotum til baka

Stefán Einar hefur svarað Össuri en hann segir Morgunblaðið ekki hafa stundað nokkuð einelti. Þvert á móti hafi Stefán Einar hampað Ingu Sæland líklega meira en nokkur annar. Hins vegar treysti Stefán Einar sér ekki til að fá Össur í viðtal í Spursmál að svo stöddu þar sem Össur sé greinilega ekki með réttu ráði.“

„Þú ert skarpur greinandi þegar kemur að mökunarferli urriðans í undirdjúpunum. Enginn efast um það. En í þessu efni bregst þér bogalistin illilega.

Það blasir við öllum, enda ekkert einelti í þessari atburðarás. Fáir ef nokkrir hafa hampað Ingu Sæland með þeim hætti sem ég hef gert. Og þótt ég hafi gert útgerðarsögu bróður núverandi oddvita FF í borgarstjórn að yrkisefni í einum þætti þá hefur það engum straumhvörfum valdið.

Þessi skakki póll sem þú hefur tekið í hæðina veldur því að ég neyðist til að afturkalla rausnarlegt boð mitt um nærveru þína við Spursmálaborðið. Við getum ekki gert áhorfendum að horfa upp á þessa greiningarlegu hryggðarmynd fyrr en þú ert aftur kominn til sjálfs þín, og yddað að nýju hnífskarpan blýantinn sem áður lék svo glæsilega í höndum þínum.

Ertu nokkuð að taka Biden á okkur samferðamennina?“

Ógurlega ertu nú lítill í þér

Gauti B. Eggertsson, prófessor í hagfræði og bróðir Dags B. Eggertssonar, telur að Össur muni ekkert gráta það að komast ekki í viðtal hjá Stefáni Einari.

„Ógurlega ertu lítill í þér Stefán minn. „Ég neyðist til að afturkalla rausnarlegt boð um nærveru þína við Spursmálaborðið!“ Hvað er það eiginlega? Eitthvað efni á netinu? Össur hlýtur að vera mikið niðri fyrir vegna þessarar ægilegu refsingar. Mér þætti þú góður ef þér tækist að fá Össur til að nenna að tala við þig í þessu netvarpi.“

Stefán Einar sagðist nú bara verið að gantast með þá staðreynd að Össur hafi „þráfaldlega komið sér undan heimsókn í Hádegismóa.“

„Gríni þessu var slengt fram í veikri von um að leiðinlegir menn myndu ekki grípa þetta á lofti. Það reyndist falsvon.“

Gauti tók þá fram að hann nenni ekki að rífast við Stefán um hversu leiðinlegur hann sé þó um það séu tilteknar vísbendingar. Það komi ekki á óvart að Össur afþakki að taka þátt í þeim leiðindum sem Morgunblaðið sé orðið.

„Þvílík og önnur eins skömm sem er af þessum snepli, óheiðarlegri blaðamennsku en þar viðgengst hef ég ekki kynnst í íslenskum fjölmiðlum á ævinni og hef ég þó mörg blöðin lesið. Og já, leiðinlegt er það í ofanálag.“

Björn Leví Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, tekur fram að þó Stefán meini ekki fréttaflutning sinn sem einelti þá geti það vel verið upplifun Ingu. Því fór sem fór í borginni.

Guðmundur Andri Thorsson, fyrrum þingmaður, segir það magnað að Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs sjálfs Oddssonar hafi komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda í borginni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti

195 ökumenn stöðvaðir í Ofurskálareftirliti
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“

Ógnarástand í Breiðholtsskóla: „Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis“
Fréttir
Í gær

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjögurra barna móðir meðal þeirra sem myrt voru í Örebro – „Hún vildi hjálpa öllum öðrum“

Fjögurra barna móðir meðal þeirra sem myrt voru í Örebro – „Hún vildi hjálpa öllum öðrum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún tekur slaginn við Áslaugu Örnu og Snorra

Guðrún tekur slaginn við Áslaugu Örnu og Snorra
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þetta eru stærstu landeigendurnir á Íslandi

Þetta eru stærstu landeigendurnir á Íslandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnar lá ósjálfbjarga heima hjá sér í 8 klst. – Hvetur fólk í sömu stöðu til að fá sér öryggistæki

Ragnar lá ósjálfbjarga heima hjá sér í 8 klst. – Hvetur fólk í sömu stöðu til að fá sér öryggistæki