Það er enginn meirihluti í borgarstjórn sem stendur eftir að borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, sleit samstarfi Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata á föstudag. Þreyfingar áttu sér stað í kjölfarið með Sjálfstæðisflokk, Framsókn, Viðreisn og Flokki fólksins en þær virðast hafa siglt í strand í gær eftir að formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, lýsti yfir andstöðu sinni við mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokk. Orðið á götunni er að nú eigi sér stað viðræður um mögulega vinstristjórn Samfylkingar, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins.
Gunnar Smári Egilsson, einn af stofnendum Sósíalistaflokks Íslands, segir að þó stutt sé í sveitarstjórnakosningar þá sé enn tími til góðra verka. Hann er hrifinn af mögulegri vinstri stjórn en þar geti nýir flokkar komið inn í meirihluta með skýrar áherslur sem muni glæða nýju lífi í borgarmálin.
„Þótt það séu bara fimmtán mánuðir til borgarstjórnarkosninga mætti nýta þann tíma til að koma í gegn afgerandi aðgerðum í uppbyggingu félagslegs húsnæðis (það er einkum efnaminna fólk sem flýr háan húsnæðiskostnað í borginni og óbeislaður leigumarkaður grefur undan lífskjörum hinna fátækustu) og stöðva ráðagerðir hægri flokkanna um niðurskurð opinberrar þjónustu, útvistun og einkavæðingu almannaþjónustunnar.“
Gunnar Smári tekur fram að möguleg vinstristjórn geti sett takmörkuð en skýr markmið fyrir þennan tíma sem verði hægt að koma í framkvæmd á þessum fimmtán mánuðum. Í slíkum meirihluta sé augljóst hver ætti að fá borgarstjórastólinn.
„Samfylkingin hefur leitt meirihluta í borginni meira og minna síðan 2010. Píratar hafa verið meðreiðarsveinar Samfylkingarinnar. Sósíalistar, VG og Flokkur fólksins koma nú að meirihluta og gera kröfur um breytingar á stefnunni. Og til að sýna út á við að þetta sé nýr meirihluti með lagaða stefnu þarf nýja og ferska forystusveit. Og þá er augljós kostur að fá vinsælasta borgarfulltrúann, þann sem fjórðungur borgarbúa, 24,7%, sagði fyrir skömmu að hefði staðið sig best allra borgarfulltrúa, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, til að vera borgarstjóri.“