fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Eyjan

Einar afhjúpar dramatískan fund þar sem því var fyrst hótað að slíta meirihlutasamstarfinu – „Þá brást á mikil taugaveiklun“

Eyjan
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, sleit meirihlutasamstarfinu í Reykjavík á föstudaginn. Boðaði hann í kjölfarið meirihlutaviðræður Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins. Strax í gær virtist þó koma á daginn að Flokkur fólksins treysti sér ekki í samstarf við Sjálfstæðisflokk sem undanfarið hefur gengið hart fram í gagnrýni á þingflokk Fólks fólksins.

Einar ræddi um stöðuna í Sprengisandi í dag þar sem hann tók fram að honum þætti vænt um fyrrum samstarfsflokka sína en í samstarfinu hafi ekkert gengið að koma góðum málum í framkvæmd.

„Ég kem inn í borgina í síðustu kosningum með skýrar áherslur um breytingar í Reykjavík. Hátt í fimmtungur kjósenda kaus Framsókn og við mynduðum þennan meirihluta. Við hefðum reyndar kosið að mynda meirihluta til hægri vegna þess að síðustu kjörtímabilum hefur verið stýrt af sömu flokkunum að mestu leyti með sömu stefnu. En þessi meirihluti, Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn, var sá eini sem var í boði þá.“

Því hafi hann ákveðið að láta á þetta reyna. Hann furðar sig á ummælum oddvita fyrrum samstarfsflokkanna um að það hafi enginn ágreiningur verið í meirihlutanum, nema kannski um Reykjavíkurflugvöll, en slíkur ágreiningur hafi verið uppi allt frá öndverðu. Einar segir þetta rangt. Þó svo ekki hafi verið fjallað um slíkan ágreining opinberlega þá þýði það ekki að hann hafi ekki verið til staðar.

„Það hefur sannarlega neistað milli flokkanna. Það eru mjög ólíkar áherslur í húsnæðismálum, rekstrarmálum.“

Dramatískur fundur

Einar lét vinna hagræðingartillögur þegar hann tók við sem borgarstjóri en þeim hafi verið mætt með mikilli andstöðu. Svo nefnir hann leikskólamál þar sem hann hefur viljað brúa stöðuna með nýjum lausnum á borð við fyrirtækjaleikskóla og heimgreiðslur til foreldra. Þessu hafi til dæmis Samfylkingin verið mjög á móti.

Hann hafði vonast eftir því að með því að fá Framsókn inn í samstarfið væri hægt að breyta aðeins stefnu meirihlutans. Það gekk þó ekki eftir. Framsókn leyfði sér svo að tala með sannfæringu sinni í málefni flugvallarins í vikunni og þá hafi allt ætlað um koll að keyra.

„Við fórum og sögðum okkar skoðun og þá brást á mikil taugaveiklun í samstarfsflokkunum okkar. Samfylkingin kallaði eftir fundarhléi, sem var dramatískur fundur á meðan aðrir flokkar biði.“

Borgarfulltrúar Framsóknar voru sakaðir um árás gegn meirihlutasamstarfinu og var á þessum fundi fært í orð að það gæti orðið til þess að meirihlutanum yrði slitið – út af framgöngu Framsóknar.

„Og þarna er fyrst fært í orð slit á meirihlutasamstarfinu vegna þess hvernig Framsókn gekk fram, hagaði sínum málflutningi og vildi bóka um það. Ég var sakaður um það að tala ekki fyrir stefnu meirihlutans og að þetta væri árás á Samfylkinguna. Og það bara rann upp fyrir borgarstjórnarhópi Framsóknar að núna væri meirihlutinn þannig skipaður, oddvitahópurinn, að við myndum ekki komast áfram með neitt af þeim málum sem að við viljum komast fram með nei.“

Bílastæðamálin galin

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi spurði Einar hvað hann ætti við þarna, Hvort hann væri að vísa til þess að staðan hafi orðið erfiðari eftir að Dagur B. Eggertsson var farinn á þing, en þá tók Heiða Björg Hilmisdóttir við sem oddviti.

„Ég vil ekki fara í persónur og leikendur hérna. Ég bara horfi á hópinn. Ég veit að það er verið að sækja á mig hér af öðrum en ég ætla ekki að fara í manninn hér. Ég veit bara að staðan er þessi – það var okkar mat að við kæmumst ekki lengra og við skulduðum kjósendum, sem fylktu sér á bak við Framsókn, að standa á okkar meiningu.“

Varðandi önnur mál sem hafa valdið ágreiningi nefnir Einar bílastæðamálin í borginni. Samstarfsflokkarnir hafi gengið hart fram í að fækka bílastæðum að því er virðist af ástæðulausu. Einar segist alveg tilbúinn að fækka bílastæðum en það sé verið að byrja á vitlausum enda. Það þurfi að bíða þar til Borgarlína er komin í gagnið svo Reykvíkingar hafi raunverulegan kost umfram einkabílinn.

„Það er bara margt sem við höfum átt erfitt með og sáum að við kæmumst ekki áfram með þessum meirihluta. Þá er ég bara tilbúinn að leggja mitt starf að veði. Það er voðalega þægilegt að vera borgarstjóri að því leytinu til að þetta eru fín laun, það er bílstjóri og þetta er voðalega gaman allt saman. En ég er ekki kjörinn til að hirða bara launatékkann og vera fínn karl uppi í Ráðhúsi. Ég er að berjast fyrir kjósendur og þá legg ég bara allt að veði.“

Hann segir meirihlutann þó hafa náð mörgu góðu í gegn.

Er með hugmynd fyrir Flokk fólksins

Varðandi meirihlutaviðræðurnar við Sjálfstæðisflokk, Flokk fólksins og Viðreisn segir Einar að það séu enn allir að tala við alla og það þurfi bara að koma í ljós hvernig það fer. Nú séu flokkarnir sem hallast til vinstri að ræða saman og það þurfi að sjá hvað kemur úr því.

Flokkur fólksins hafi þó verið spenntur fyrir viðræðunum fyrir helgi en greinilega hafi óánægja frá grasrótinni haft áhrif. Einar furðar sig þó á því að tengja saman samskipti Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins á þingi og hjá borginni.

Hann vill ekki meina að hann hafi misreiknað sig þegar hann sleit meirihlutanum. Ef hann endar í minnihluta þá er það bara þannig. Hann sé ekkert að berjast fyrir því að vera áfram borgarstjóri eða í meirihluta heldur skipti öllu máli að ef Framsókn verði í meirihluta þá takist að koma í gegn málum fyrir kjósendur. Það hafi ekki verið hægt í samstarfinu sem var slitið.

Hann bendir Flokki fólksins þó á að það gæti verið klókt að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borginni. Inga Sæland sé nú með húsnæðismálin í sínu ráðuneyti og þar skipti miklu máli hvað borgin gerir. Eins sé mögulega hægt að hafa hemil á Sjálfstæðisflokknum á þingi með því að hóta því að slíta meirihlutasamstarfinu í borginni.

„Það væri nú kannski krókur á móti bragði að mynda meirihluta hér með Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og hafa þá líf meirihlutans í hendi sér og geta notað þá svipu á Sjálfstæðisflokkinn í þinginu. Ég sting því bara að henni hér.“

Hann segir ákvörðun sína um að slíta meirihlutanum hafa verið rétta. Hann stendur með henni en tekur fram að hún var ekki auðveld enda hefur hann átt í góðum samskiptum við samstarfsflokka sína og þar sé mikil vinátta. Hann hafi ekki tekið þessa ákvörðun út af slæmu gengi Framsóknar í skoðanakönnunum. Fylgið gefi þó vísbendingu um að kjósendur telji að Framsókn hafi ekki náð þeim árangri sem var lofað. Það þurfi Einar að hlusta á.

Einar segist þó ekki útiloka nokkuð hvað varðar framhaldið. Framsókn geti unnið með öllum flokkum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Heidelberg beinir sjónum sínum að Húsavík eftir höfnunina í Þorlákshöfn

Heidelberg beinir sjónum sínum að Húsavík eftir höfnunina í Þorlákshöfn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Harður dómur yfir Musk – „Endist í eitt ár“

Harður dómur yfir Musk – „Endist í eitt ár“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Spara ekki stóru orðin – „Heimskulegasta viðskiptastríð sögunnar“

Spara ekki stóru orðin – „Heimskulegasta viðskiptastríð sögunnar“
Eyjan
Fyrir 1 viku

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti

America First draumur Trump keyrir áfram af fullum krafti