fbpx
Sunnudagur 09.febrúar 2025
Pressan

Tímavélin: Óhugnaður á íslenskum sveitabæ – Tekinn af foreldrum sínum og sendur beint í greipar níðings

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 8. febrúar 2025 22:48

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1901 var 8 ára gamall drengur, Páll Júlíus Pálsson, tekinn af foreldrum sínum og komið fyrir á bænum Hörgsdal. Páll var svokallaður hreppsómagi eins og börn sem komið var fyrir á öðrum heimilum, vegna fátæktar heima fyrir, gegn greiðslu frá viðkomandi hreppi voru kölluð. Með Páli fylgdu í Hörgsdal 54 krónur en árið eftir, vorið 1902, bauðst Oddur Stígsson sem var bóndi á bænum Skaftárdal í Vestur-Skaftafellssýslu til að taka Pál inn á heimili sitt og konu sinnar, Margrétar Eyjólfsdóttur, fyrir 20 krónur. Það varð úr að Páll fór með hjónunum en hann átti ekki eftir að sleppa lifandi frá þeirri vist.

Fjallað var um hina myrku sögu Páls í samantekt Sveins Guðjónssonar í Morgunblaðinu árið 1982 .

Samkvæmt heimildum þessa tíma var Páll við góða heilsu þegar hann fór með hjónunum. Faðir Páls, Páll Hannesson, hafði árið 1900 leitað á náðir Kleifarhrepps í Skaftafellssýslu vegna erfiðleika við að framfleyta sér, eiginkonu sinni og 4 börnum.

Páll yngri var í kjölfarið fjarlægður af heimilinu. Faðir hans reyndi síðar að fá hann til baka frá Skaftárdal en var synjað um það á þeim grundvelli að drengurinn byggi þar við gott atlæti.

Páll eldri kvartaði yfir aðbúnaði sonar síns í Skaftárdal í nóvember 1902. Ekki var tekið mark á því en á endanum var Sveinn Eiríksson prestur sendur á bæinn, í desember 1902, til að kanna líðan drengsins og hvort hann hlyti góða meðferð hjá Oddi og Margréti. Sagði presturinn Pál yngri vera bersýnilega í góðu líkamlegu ástandi. Drengurinn væri glaðvær og hefði gefið skýrt til kynna að hann vildi helst af öllu fá að vera áfram á bænum. Í mars 1903 barst sýslumanni hins vegar tilkynning um Páll væri látinn, aðeins 10 ára að aldri.

Úr fátækt í fátækt

Í raun var Páll ekki að fara af fátæku heimili á mikið minna fátækt heimili. Húsakosturinn á bænum var fátæklegur, aðeins tvær kýr sem voru eins og algengt var í þá dag inn af íverustað mannfólksins en ekki í aðskildu fjósi. Innanstokksmunir voru fáir en ágætt magn var til af bókum. Páll tók síðan fullan þátt í bústörfunum eins og venjan var að börn gerðu á þessum tíma.

Skaftárdal var skipt í austur- og vesturbæ. Oddur og Margrét bjuggu í vesturbænum en bóndinn í austurbænum sagði síðar að hann hefði séð Odd skipa drengnum fyrir með harðneskjulegu orðfari og einnig hefði hann barið drenginn.

Faðir Páls og móðir hans, Pálína Pálsdóttir, heimsóttu Skaftárdal rétt fyrir jólaföstu 1902. Páll eldri sagði síðar að við það tækifæri hefði sonur hans tjáð honum að Oddur berði hann oft og skipaði honum fyrir með harkalegum orðum. Drengurinn hefði verið hræddur og undir þetta tók Pálína.

Fékk hann ekki heim

Eftir þessa heimsókn í Skaftárdal fór Páll eldri að berjast fyrir því að fá son sinn til baka en það bar ekki árangur.

Páll eldri fór síðan aftur á bæinn um miðjan desember 1902 en þá sagði sonur hans að Oddur væri ekki eins vondur sig og áður. Talið er að Oddur hafi heyrt að hann væri sakaður um illa meðferð á drengnum og hafi sagt honum að segja þetta við föður sinn.

Stuttu síðar kom presturinn í áðurnefnda heimsókn og sagði allt vera í góðu lagi en honum og Páli eldri bar saman um að það væri ekki sjáanlegt að drengurinn hefði mátt þola sult. Hann virtist vel nærður.

Fleiri vitni staðfestu það en þremur mánuðum síðar var hann látinn og á líki hans mátti sjá það glögglega að hann hafði orðið fyrir alvarlegum næringarskorti fyrir andlátið.

Leitaði ekki læknis

Í janúar 1903 var Páll kominn með mikil sár á fæturna og úr þeim lak gröftur. Oddi fanns virtist finnast það alger óþarfi að leggja það á sig að leita til læknis fyrir hreppsómagann.

Nágranninn í austurbænum sá að mikill munur var á drengnum frá því um jólin og hann sást haltra en ekki vissi nágranninn af fótasárunum.

Páll kvartaði hins vegar aldrei og hætti á endanum að koma í austurbæinn eftir að Oddur bannaði honum það.

Í mars 1903 kom vinnukona í vesturbæinn í Skaftárdal. Hún bar síðar vitni um að hún hefði heyrt Pál gráta og emja við bústörfin en aldrei spurt hann hvað amaði að honum.

Þremur dögum síðar komu hreppsnefndarmenn á bæinn. Þeim þótti Páll heldur dauflegur. Daginn eftir fór fram skírnarveisla. Páll tók lítinn þátt í veislunni en kvartaði við prestinn undan magaverkjum. Um nóttina laumaðist Páll til að ná sér í kæfubita en Oddur stóð hann að verki og lét höggin dynja á honum með vendi sínum.

Fleiri högg

Oddi var leyfilegt samkvæmt þágildandi lögum að hýða sveitarómaga fyrir að taka mat ófrjálsri hendi.

Kvöldið eftir stal Páll aftur mat og dró þá Oddur hann á eyranu inn í fjós og setti hann í að vinna þau verk sem þurfti að vinna þar. Um nóttina stal Páll aftur mat. Morguninn eftir losaði Oddur um föt Páls og hýddi hann enn á ný með vendinum. Sárin eftir fyrri hýðingarnar urðu enn stærri og það blæddi úr drengnum.

Páll haltraði um húsið en kvartaði ekki. Þremur dögum síðar svaf Páll lengi fram eftir degi. Skyndilega fór hann að gefa frá sér mikil óp. Meðvitund hans var skert, hann átti erfitt með andardrátt, fætur hans voru ískaldir, hann fékk krampaköst og það hrygldi í honum

Setið var yfir honum en ekki gert neitt til að koma honum til bjargar og á endanum lést Páll.

Áverkar

Þegar lík Páls var skoðað komu í ljós fjöldi áverka. Á gagnauga, efri vör, bak við eyrun voru sár og niður eftir öllu bakinu sár sem blasa þótti við að væru eftir vönd.

Líkið var afar magurt, blóðlítið, kinnfiskasogið, merki voru um bjúg á fótum, mein og mikil sár voru á báðum stórutám og fitulagið undir húðinni var horfið. Bein og tennur þóttu einnig sýna skýr merki um beinkröm.

Auk þessa að vera beittur grófu ofbeldi hafði Páll því bersýnilega liðið mikinn næringarskort.

Oddur neitaði í fyrstu að hafa beitt drenginn svo grófu ofbeldi.  Hann játaði það hins vegar á endanum þegar honum voru kynntir áverkanir á líki Páls.

Aðeins ár

Fyrir þetta hlaut Oddur 12 mánaða betrunarhúsavist í rétti í Skaftafellssýslu og Margrét kona hans var dæmd í 30 daga fangelsi.

Málið var tekið fyrir við æðsta dómstólinn sem staðsettur var hér landi á þessum árum, Landsyfirrétti, en æðstur var Hæstirréttur Danmerkur. Í dómi réttarins segir að læknar hafi talið næringarskort og ómeðhöndluð fótasár hafa dregið drenginn til dauða. Líkið hafi vissulega borið merki um næringarskort en ekki verið krufið og því væri ekki útilokað að einhver ógreindur sjúkdómur hafi dregið Pál til dauða fremur en næringarskortur.

Rétturinn tók Odd og Margréti trúanleg um að þau hafi ekki gert sér grein fyrir að fótasárin gætu verið drengnum hættuleg og að vegna anna hafi dregist að útvega honum aðstoð. Þar með hafi þau ekki misþyrmt drengnum með því að láta ekki meðhöndla sárin og þar sem engin krufning var gerð væri ekki hægt að fullyrða að fótasárin hefðu átt þátt í dauða Páls.

Rétturinn sagði hins vegar ljóst að miðað við áverkana á Páli og játningu Odds hefði sá síðarnefndi misþyrmt hinum fyrrnefnda grimmilega og að enginn þjófnaður á mat hefði réttlætt slíka meðferð. Það væri afar líklegt að þessi meðferð hafi flýtt fyrir dauða Páls. En eftir sem áður gerði rétturinn mikið úr að engin krufning hefði fram og því væri ekki sannað hvað nákvæmlega dró Pál til dauða. Því var dómurinn yfir Oddi, 12 mánaða betrunarhúsavist, staðfestur.

Margrét var hins vegar sýknuð þar sem ósannað þótti að hún hefði tekið þátt í ofbeldinu.

Sanngjarnt

Ljóst er að á þessum árum þótti eðlilegt að beita sveitarómaga hörðu en mörgum þótti samt meðferðin á Páli taka út yfir allan þjófabálk. Líf hans þótti samt ekki meira virði en svo að það var talið við hæfi að beita ekki meira en árslangri refsingu fyrir að í raun svelta hann og berja til bana.

Þótt það hafi engin krufning farið fram má vel halda því fram að áverkarnir á líkinu og augljós merki um alvarlegan næringarskort hafi átt að vera nægilegar vísbendingar um hvað dró þennan 10 ára dreng til dauða.

Það er hins vegar afar auðvelt að setjast í dómarasæti yfir fortíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Kristinn greinahöfundur sem sakaði dragdrottningar um að kyngera börn hefur verið handtekinn fyrir brot gegn barni

Kristinn greinahöfundur sem sakaði dragdrottningar um að kyngera börn hefur verið handtekinn fyrir brot gegn barni
Pressan
Í gær

Sektaður fyrir að hafa verið drukkin þegar hann flaug dróna

Sektaður fyrir að hafa verið drukkin þegar hann flaug dróna
Pressan
Fyrir 2 dögum

X höfðar mál á hendur Lego

X höfðar mál á hendur Lego
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ítalskur læknir ákærður í óvenjulegu máli þar sem kötturinn hans kemur við sögu

Ítalskur læknir ákærður í óvenjulegu máli þar sem kötturinn hans kemur við sögu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta áttu ekki að gera ef þú vilt hafa gott loft í íbúðinni þinni

Þetta áttu ekki að gera ef þú vilt hafa gott loft í íbúðinni þinni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Telja sig hafa fundið andlit á Suðurskautslandinu

Telja sig hafa fundið andlit á Suðurskautslandinu