Tilkynnt hefur verið að skrifstofa Sýslumannsins á Norðurlandi eystra í Langanesbyggð verði lokuð í 3 vikur á meðan eini starfsmaðurinn þar verður í fríi. Óvenjulegt verður að teljast að skrifstofa opinberrar stofnunar loki dyrum sínum svo lengi um miðjan vetur.
Skrifstofan í Langanesbyggð er ein af fimm starfsstöðvum embættisins. Aðalskrifstofan er á Húsavík en aðrar skrifstofur eru á Akureyri, Siglufirði og Dalvík.
Auk daglegra verkefna svo sem að taka á móti þeim gögnum og skjölum sem íbúar þurfa að koma til embættisins hefur starfsmaðurinn sinnt ýmsum sérverkefnum við t.d. skráningu skjala, fyrir meðal annars Byggðastofnun og unnið að málaskrá í fjölskyldumálum fyrir allt landið.
Upphaflega réð Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra starfsmann með starfsstöð í Langanesbyggð árið 2020. Hefur starfsmaðurinn haft aðstöðu í sama húsi og hýsir skrifstofu sveitarfélagsins.
Í tilkynningu frá embættinu sem birt er á vef Langanesbyggðar segir að skrifstofan verði lokuð vegna leyfis starfsmannsins frá 13. febrúar til 6. mars þegar hún opni aftur. Íbúum er bent á að á meðan skrifstofan er lokuð sé hægt sé að fylla út allar umsóknir rafrænt og að vera í netsambandi við aðra starfsmenn embættisins.
Ekki finnast nein merki um óánægju íbúa með þessa ráðstöfun en við leit í netheimum sést að tilkynning um lokun skrifstofunnar vegna leyfis starfsmannsins hefur áður verið gefin út á svipuðum árstíma.
Algengara er að opinberar stofnanir loki eða skerði opnunartíma á sumrin en þegar aðeins einn starfsmaður er á viðkomandi skrifstofu er væntanlega óhjákvæmilegt að loka þurfi þegar viðkomandi fer í frí. Á stafrænum tímum er þó þriggja vikna lokun líklega minna mál en ella fyrir íbúa, mögulega að undanskildum þeim elstu.