Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður og knattspyrnudómari andmælir þeirri niðurstöðu fjármálaráðuneytisins um að ekki séu til staðar forsendur fyrir því að ríkið krefji stjórnmálaflokka sem ekki voru skráðir á lista Skattsins yfir stjórnmálasamtök um endurgreiðslur á framlögum úr ríkissjóði. Samkvæmt lögum frá 2021 er slík skráning skilyrði fyrir því að flokkar hljóti slík framlög en einkum hefur undanfarið verið rætt um Flokk fólksins í því samhengi en hann hefur hlotið 240 milljónir króna frá ríkinu þrátt fyrr að hafa aldrei verið skráður sem stjórnmálaflokkur hjá Skattinum.
Í niðurstöðu sinni studdist ráðuneytið við álitsgerð ríkislögmanns og Flóka Ásgeirssonar lögmanns.
Ráðuneytið segir að hafi stjórnmálasamtök uppfyllt önnur skilyrði til úthlutunar en það sem varðar skráningu í stjórnmálasamtakaskrá, þá standi veigamikil rök gegn því að endurkröfuréttur sé fyrir hendi.
Framlögin séu liður í að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði. Krafa um endurgreiðslu myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfsemi hlutaðeigandi samtaka, þvert gegn markmiðum laga.
Um hafi verið var að ræða misbrest í verklagi við úthlutun framlaga og bæði stjórnvöld og viðkomandi stjórnmálasamtök staðið í þeirri trú að lagalegur réttur stæði til fjárframlaganna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan misbrest hefði ráðuneytið haft tilefni til að leiðbeina stjórnmálasamtökum um skráningu, áður en fé var fyrst úthlutað úr ríkissjóði eftir lögfestingu skilyrðisins.
Loks mæli það gegn endurkröfurétti að lögin hafi verið framkvæmd á þessa vegu um nokkurt skeið og viðtakendur greiðslnanna hagað starfsemi sinni til samræmis við þá trú að framlögin væru lögmæt og endanleg.
Arnar Þór andmælir þessari niðurstöðu ráðuneytisins í ítarlegri Facebook-færslu sem hann veiti DV góðfúslegt leyfi til að vitna í.
Hann segir að í álitsgerðunum sem ráðuneytið studdist við skorti umfjöllun um viðurlagaákvæði umræddra laga um starfsemi stjórnmálaflokka. Samkvæmt því skuli hver sem taki við framlögum sem óheimilt sé að veita viðtöku, samkvæmt ákvæðum laganna, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Arnar Þór segir að í 6. grein laganna segir að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá opinberum aðilum sem ekki rúmist innan ákvæða annars kafla laganna. Í þeim kafla laganna sé meðal annars ákvæðið sem hefur verið í brennidepli í málinu, 5. grein a-liður um að skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði sé að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð sem slík.
Arnar Þór segir einnig að í 13. grein laganna komi fram að refsa skuli fyrir brot, sem þar undir kunni að heyra, séu þau framin af ásetningi eða gáleysi. Arnar segir þetta mjög mikilvægt:
„Þetta atriði hefur mikla þýðingu. Gáleysisviðmiðið hér yrði tæplega túlkað strangt auk þess sem hæpið er fyrir stjórnmálamenn að bera ókunnugleika við hafandi komið sjálfir að setningu laganna.“
Það er niðurstaða Arnars Þór að miðað við þetta kunni það því að hafa verið refsivert fyrir viðkomandi stjórnmálasamtök, sem ekki voru skráð sem slík, að taka við fénu. Að minnsta kosti geti viðtakendur fjárins ekki hafa verið í góðri trú. Þegar svo hátti til standa lög að hans dómi til þess að afturkalla umæddar ákvarðanir og krefjast endurgreiðslu á fénu í ríkissjóð. Ríkissjóður eigi þessa endurgreiðslukröfu og beri að fylgja henni eftir. Það sé á ábyrgð fjármálaráðherra.