Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, hefur boðið borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokk Fólksins til viðræðna um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.
Þetta kemur fram í færslu sem Einar skrifaði á Facebook-síðu sína nú fyrir stundu. Sagði hann ástæðu meirihlutaslitana , sem tilkynnt var um fyrr í kvöld, vera fyrst og fremst þá að hann sæi ekki fram á að geta knúið fram meiri breytingar í núverandi meirihluta.
„Ég tók þá ákvörðun í kvöld að slíta meirihlutasamstarfi Framsóknar við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn. Það var ekki auðveld ákvörðun en mikilvæg.
Ég bauð mig fram til þess að knýja fram breytingar í Reykjavík. Margt hefur áunnist á þessum þremur árum og þá sérstaklega þegar kemur að rekstri borgarinnar. Ég vil þakka samstarfsfélögum mínum fyrir samstarfið og vona að það verði áfram gott í borgarstjórn.
Pólitískar áherslur þessara flokka eru þó þannig ólíkar að ég tel að við í Framsókn náum ekki að gera þær nauðsynlegu breytingar sem Reykjavík þarfnast. Við þurfum að taka stærri ákvarðanir í húsnæðismálum og ryðja meira land. Við þurfum fjölbreyttari lausnir í leikskólamálum, eins og vinnustaðaleikskóla og daggæsluúrræði til að brúa bilið og við þurfum að halda enn betur utan um rekstur borgarinnar.
Við þurfum að einblína á grunnþjónustuna og einfalda líf borgarbúa. Svo er brýnt að eyða óvissu um Reykjavíkurflugvöll og tryggja rekstur hans á meðan ekki er annar flugvöllur í boði.Reykjavík er enda höfuðborg allra landsmanna.
Ég hef þegar boðið Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Flokki fólksins til umræðu um myndun nýs meirihluta. Vonandi gengur það vel. Áfram Reykjavík,“ skrifaði Einar.