Sala bifreiða frá Teslu hefur hrunið víða í Evrópu en sérfræðingar telja að það megi að hluta til rekja til afskipta eiganda fyrirtækisins, Elon Musk, af stjórnmálum Evrópuþjóða. Sala hefur eins dregist saman í Kína en má það að mestu rekja til öflugrar samkeppni frá framleiðendum þar í landi.
Samkvæmt fréttum frá Þýskalandi varð mikið hrun á sölu Teslu-bifreiða í janúar. Talið er að það megi rekja til meintrar nasistakveðju eiganda fyrirtækisins, Elon Musk, sem og stuðnings hans við öfgahægri flokkinn AfD. Nýskráningar á Teslum voru aðeins 1.277 í janúar sem er tæpum 60% minna en í janúar árið 2024. Á sama tíma sýna gögn að sala rafbíla frá öðrum framleiðendum hefur aukist mikið. Sumir eigendur Tesla-bifreiða hafa eins pantað sér sérstaka límmiða til að setja á ökutæki sín svo það sé á hreinu að bifreiðin var keypt áður en „Musk missti vitið“.
Sala Teslu-bifreiða dróst einnig saman í Kína um 11,5% í janúar á meðan sala samkeppnisaðilans BYD jókst um 47% milli ára. Aðrir samkeppnisaðilar á borð við Changan Automobile og Xpeng hafa líka bætt við sig. Tesla hefur reynt að snúa þessari þróun við með því að lækka verð á tilteknum bifreiðum og bjóða aðlaðandi fjármögnunarleiðir.
Eins hefur sala minnkað í Svíþjóð, Noregi og Frakklandi en aðeins lítillega í Bretlandi.
Markaðskönnun í Svíþjóð sýndi að þar í landi hefur ímynd Tesla beðið hnekki. Aðeins um 11% Svía hafa jákvæða afstöðu til Tesla en áður en Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta voru um 19% Svía jákvæðir í garð bifreiðaframleiðandans. Þeim hefur eins fjölgað ört sem hafa neikvæða afstöðu til Tesla en fyrir tveimur vikum voru það 47% Svía en í nýjustu könnuninni nam hlutfallið 63%.