Vala er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hún segir frá símtalinu sem engin systir vil fá og aðdragandann að því í spilaranum hér að neðan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Þórunn, sem var alltaf kölluð Tóta og gekkst undir listanafninu Tóta Van Helzing, var ótrúlega hæfileikaríkur prjónahönnuður. Í samstarfi við Kraft hannaði Vala Lífið er núna húfurnar í ár, en hönnunin er innblásin af verkum systur hennar.
Sjá einnig: Vala um systurmissinn – „Það var ótrúlegt að alast upp með henni og mín mesta gæfa“
Vala bjó um tíma í Ástralíu þar sem hún var í meistaranámi í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði við Háskólann í New South Wales. Hún rifjar upp aðdragandann að símtalinu sem engin systir vill fá. „Þetta er símtal sem ég myndi ekki vilja óska neinum að fá,“ segir hún.
„Systir mín hafði verið að glíma við góðkynja hnúta í leginu í mörg ár sem ollu henni miklum kvölum. Það er þannig, þegar þú ert með æxli í leginu, það er rosalega sjaldan sem skurðlæknar eða kvensjúkdómalæknar, allavega í hennar tilviki, vilja gera aðgerðir á leginu,“ segir Vala.
„Af því að þegar eitthvað er gert við legið þá myndast örvefur, sérstaklega ef stór æxli eru tekin, þá myndast mikill örvefur sem getur stofnað bæði konu og barni í hættu ef konan verður síðan þunguð í framhaldi. Þannig það voru allir í rauninni að bíða eftir að hún myndi kannski eignast mann og ákveða að eignast börn og svona.“
Vala segir að Tóta hafi gengið á milli kvensjúkdómalækna nokkrum árum áður en hún greindist með krabbamein. „En við vitum svo sem ekki hvort þetta sé tengt eða ekki. En hún finnur síðan kvensjúkdómalækni sem að ákveður að taka stærsta æxlið í leginu og það var bara eins og tennisbolti,“ segir hún.
Vala segir að fólk geti rétt ímyndað sér kvalirnar sem Tóta hafi þurft að þola en eins og er því miður of algengt með verki tengda móðurlífinu þá tók langan tíma að einhver hlustaði og hjálpaði.
„Auðvitað þegar það eru svona miklar kvalir í fjölskyldu… maður er svo ráðalaus. Maður getur ekki sett sig í spor þeirra og maður veit ekki hvernig þessar þjáningar eru, þannig maður er alltaf: „Hvað getum við gert? Hvernig getum við hjálpað þér? Hvað eigum við að gera? Hvernig getum við verið til staðar?“
„Hún fór í þessa aðgerð og var rosalega bjartsýn, en svo löguðust kvalirnar ekki neitt og hún var ennþá rosalega kvalin. Hún fór aftur til læknis og sagði að það hafi ekki gert neitt að taka þessi æxli. Og hún fór síðan bara með vinkonu sinni og ætlaði að tjékka sig inn á geðdeild, þannig var bara aðdragandinn að þessu.“
Vala flutti til Ástralíu á þessum tíma. „Við vorum alltaf í sambandi og maður var alltaf að hafa áhyggjur af henni og hún ennþá kvalin og var frá vinnu og fjarlægðist vini sína og mikið af fólki,“ segir hún og bætir við að margir töldu verkina vera í hausnum á Tótu og það hafi gert það að verkum að hún hafi einangrast enn frekar í kjölfarið.
„Síðan er þetta einhvern veginn ekkert að skána og maður er endalaust að reyna að blása í hana lífi og reyna að hjálpa henni. Ég bjó náttúrulega hinum megin á hnettinum, með tólf tíma tímamismun. Og síðan fékk ég símtal, 9. eða 10. desember 2020 þar sem systir mín var hágrátandi uppi á spítala.“
Fyrir það hafði Tóta fundið að það væri eitthvað mikið að og hún þyrfti að fara upp á bráðamóttöku. Faðir þeirra var að fara með hana en á leið út í bíl missti Tóta máttinn og þurfti faðir þeirra að halda á henni.
Þegar komið var upp á sjúkrahús var Tóta send í tölvusneiðmyndatöku. „Þá greinast þessi þrjú æxli í heilanum á henni,“ segir hún. „Og þá fæ ég þetta símtal um miðja nótt.“
Vala hefur síðastliðin ár haldið áfram með verkefnið Tóta Van Helzing og haldið lista- og tískusýningar með verkum Tótu. Nú stendur yfir listasýning, House of Van Helzing, í Rammagerðinni við Laugaveg 31. Lífið er núna húfurnar má kaupa í Rammagerðinni, Hagkaup, Krónunni og á Lifidernuna.is.
Nú stendur yfir sýning, House of Van Helzing, á verkum Tótu í Rammagerðinni við Laugaveg 31. Það er frítt inn og er sýningin opin til 12. febrúar.
Tóta Van Helzing er á Instagram og Facebook. Til að fylgja Völu á Instagram smelltu hér. Lífið er núna húfurnar eru til sölu í Krónunni, Hagkaup, Rammagerðinni og á Lifidernuna.is.