„En við erum búnir að fella meirihlutann í borginni. Hann er sprunginn. Ef þú ert að hlusta um helgina þá líklega er hann sprunginn. Við fögnum því ekkert sérstaklega en við löstum það ekki heldur,“ segja félagarnir Andrés Jónsson og Þórhallur Gunnarsson í nýjasta þætti hlaðvarpsins Bakherbergið. Þeir spá því að nýr meirihluti verði myndaður í borginni nú um helgina þar sem Framsókn mun ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og líklega munu Flokkur fólksins og Viðreisn slást í hópinn.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði í viðtali við Dagmál í gær að það hrikti í meirihluta hans út af málefni Reykjavíkurflugvallar. Samfylking, Píratar og Viðreisn vilja flugvöllinn burt en Framsókn vill halda honum í Vatnsmýrinni. Einar og aðrir borgarfulltrúar Framsóknar studdu tillögu Sjálfstæðisflokks um áframhaldandi veru flugvallarins og breytingu á aðalskipulagi. Þeir Andrés og Þórhallur segja þetta skýr skilaboð frá borgarstjóra. Hann sé sjálfur að segja að meirihlutinn standi tæpt og á sama tíma hafi hann stutt við tillögu Sjálfstæðisflokks sem gefi til kynna að Einar horfi nú til hægri.
Andrés og Þórhallur reka að Einar sé metnaðarfullur og sé að stefna að því að verða formaður Framsóknar. Það getur hann ekki gert þegar Framsókn í Reykjavík, með hann sem oddvita, mælist aðeins með rétt rúm 3 prósent í skoðanakönnunum.
Bakherbergið rekur að Einar sé klókur og hann hefði aldrei farið í einn stærsta fjölmiðil landsins og lýst því yfir að meirihlutinn væri að riða til falls, ef hann hefði enga ástæðu fyrir því. Þetta gefi sterklega til kynna að hann sé við það að slíta meirihlutasamstarfinu. Á sama tíma sendi hann skilaboð til Sjálfstæðisflokksins um að það sé pláss fyrir hægrimenn undir feldi hans.
Mögulega sé Einar að freista þess að henda samstarfsflokkum sínum undir vagninn fyrir hneykslið í kringum vöruskemmuna í Álfabakka, svokallaða græna gímaldið. Nýlega hafi birst frétt hjá RÚV, sem reyndar fór ekki mikið fyrir, þar sem fram kom að hlutur Einars í málinu var meiri en hann hafði gengist við. Einar brást fyrst við málinu með því að segjast sleginn og lét eins og hann væri heyra af þessu í fyrsta sinn.
Bakherbergið bendir eins á að það sé grunsamlegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur gengið hart fram í gagnrýni á græna gímaldið, hafi látið það eiga sig að gagnrýna Einar í málinu, þó að hann sé borgarstjóri.
Á sama tíma muni Sjálfstæðisflokkurinn taka honum fagnandi. Flokkurinn hefur lengi verið í stjórnarandstöðu í borginni og ekki tekist að komast í meirihluta. Sveitarstjórnakosningar fara fram á næsta ári og Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að sýna sig og sanna fyrir þann tíma – það geti flokkurinn gert betur í meirihluta heldur en í minnihluta.
Bakherbergið spáir því eins að nýir leikmenn muni geri tilkall til oddvitasætisins hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Til dæmis Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi eða Guðlaugur Þór Þórsson, fyrrum ráðherra. Líklega muni núverandi oddviti, Hildur Björnsdóttir, reyna að verja sæti sitt en hún hafi undanfarið verið mjög öflug og er að taka sér meira pláss.
Andrés og Þórhallur telja nánast öruggt að eitthvað sé á seyði. Mögulega sé Einar að senda skilaboð til núverandi samstarfsflokka um að þeim sé hollara að hafa sig hæga og virða stöðu hans og hans flokks – því annars eigi Framsókn aðra valkosti í stöðunni. Hinn möguleikinn er sá að hér sé Einar nánast að tilkynna að meirihlutinn sé sprunginn og á sama tíma blikka daðurslega í átt til Sjálfstæðismanna í borginni. Jafnvel er það möguleiki að hér sé um skipulagða atburðarás að ræða, baktjaldamakk sem sé þegar hafið og nú eigi að koma nýjum meirihluta að í borginni sem mun aftur styrkja böndin milli xD og xB. Þessi bönd muni eins styrkjast þar sem flokkarnir eru nú saman í stjórnarandstöðu á þingi ásamt Miðflokki. Ef ríkisstjórnin riðar til falls spáir Bakherbergið því að ný ríkisstjórn Framsóknar, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks muni taka við völdum. Það væri þó ekki úr vegi að taka fyrst ráðhúsið.
Bakherbergið bendir þó á að það eru fleiri möguleikar í stöðunni. Það séu uppi kenningar um að oddviti Samfylkingarinnar, Heiða Björg Hilmisdóttir, hafi áhuga á að mynda nýjan meirihluta með vinstri flokkunum í borginni.
Borgarfulltrúar eru 23 talsins og þarf því 12 til að mynda meirihluta. Sætin í borgarstjórn skiptast með eftirfarandi hætti: