Töfrar enska bikarsins halda áfram í kvöld en Manchester United og Leicester ríða á vaðið, Ruud van Nistelrooy stjóri Leicester mætir á sinn gamla heimavöll.
Nistelrooy hóf tímabilið sem aðstoðarþjálfari Erik ten Hag hjá United, þegar Ten Hag var rekinn tók Nistelrooy tímabundið við liðinu.
Ruben Amorim var svo mættur á svæðið til að taka við en hann vildi ekki hafa Nistelrooy í teyminu sínu og var sá hollenski því rekinn.
„Þetta var ekki erfið staða, ég vildi hafa mitt teymi með mér. Fólkið sem kom mér hingað, ég vildi vinna með þeim, Nistelrooy skildi það,“ sagði Amorim.
„Ég hefði getað haldið Ruud því það var vinsæl ákvörðun en ég vel ekki Ruud frekar en mína starfsmenn. Ég hefði því þurft að hafa hann sem einhvern aukaleikara, það var ekki sanngjarnt gagnvart Ruud.“
„Til að sýna honum virðingu þá ræddi ég þetta við hann, ég kem ekki illa fram við goðsögn hjá félaginu.“