Róbert Orri Þorkelsson nýr leikmaður Víkings meiddist eftir sex mínútna leik í frumraun sinni með með félaginu í gær. Liðið vann þá 2-0 sigur á HK í fyrstu umferð Lengjubikarsins.
Róbert Orri kom til Víkings eftir nokkra ára dvöl í atvinnumennsku en nú er ljóst að hann missir af næstu vikum.
„Þetta var tognun aftan í læri, líklega grade 1 tognun. Það eru yfirleitt um fjórar vikur en það á eftir að mynda þetta. Panathinaikos verkefnið er úr sögunni,“ sagði Kári Árnason yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi í samtali við 433.is
Róbert Orri er örvfættur miðvörður sem var nálægt því að semja við lið erlendis áður en hann kom heim en hann valdi Víking eftir samtöl við nokkur félög.
Víkingur heldur í verkefnið gegn Panathinaikos á þriðjudag í næstu viku en liðið leikur heimaleik sinn í Helsinki næsta fimmtudag og útileikinn í Grikklandi viku síðar. Sigurliðið kemst í 16 liða úrslit.