Þjónustufólk bresku konungshallarinnar gaf Meghan Markle hertogaynju af Sussex gælunafn og það alls ekki fallegt að sögn breska blaðamannsins Tom Quinn.
Segir hann starfsfólkið hafa kallað Markle Duchess of Difficult eða Erfiða hertogaynjan.
„Hún gat verið erfið vegna þess að henni fannst lífið erfitt, að reyna að finna sig í og læra á marglaga miðaldra völundarhúsakerfi,“ hefur Quinn eftir ónafngreindum hallarstarfsmanni, sem á þar við ótal siði og venjur sem konungsfjölskyldan fylgir.
Til dæmis gat Markle alls ekki skilið formlegheit Karls Bretaprins, nú konungs, við móður hans, Elísabetu drottningu. „Hún sagði einu sinni: „En þau eru mæðgin, af hverju eru þau svona algjörlega stirð hvort við annað?“
Þetta kemur fram í nýrri bók um bresku konungsfjölskylduna, Yes Ma’am: The Secret Life of Royal Servants, þar sem þjónustufólk konungshirðarinnar tjáir sig um hvað gekk á bak við tjöldin.
Þrátt fyrir gælunafnið segir heimildamaðurinn að Markle hafi einnig verið kölluð „Mystic Meg“ eða leyndardómsfulla Meg, vegna þess að starfsfólkið taldi hana hafa nýja og aðra sýn á hlutina en aðrir innan konungsfjölskyldunnar.
Markle var meðlimur konungsfjölskyldunnar frá 2018 til 2020 og heimildamaðurinn segir hana hafa átt í erfiðum samskiptum við þjónustufólkið.
„Meghan var ekki alltaf frábær við starfsfólkið sitt, hún var bara ekki vön þessu eins og Harry var. Eina stundina var hún mjög vingjarnleg, kannski ofvingjarnleg, var að faðma starfsfólk og reyna að eignast vini, og þá næstu var hún pirruð yfir því að starfsfólkið svaraði ekki strax á öllum tímum sólarhringsins.“
Quinn segir þó að einnig hafi verið litið á Markle sem „einhverja sem vildi koma hlutum í verk og breyta ástandinu.“
Í bók Quinn rifjar einn af fyrrverandi starfsmönnum Markle upp fyrstu fundi hennar í Kensingtonhöll sem hann segir hafa verið óþægilega.
„Þetta var ótrúlegt vegna þess að hún var svo örugg að þú sást að hún vildi stjórna fundinum frekar en að fræðast um konungsfjölskylduna á fundinum. Ég held að þetta hafi verið dæmigert fyrir veru hennar í Kensingtonhöll og síðan Windsor. Hún var mjög á því að taka áskoranir föstum tökum.“ Á ensku notar starfsmaðurinn líkinguna: „She was a great believer in grabbing the bull by the horns — except the royal family is not really a bull.“ Eða að Markle hafi verið vön því að grípa um horn nautsins, nema konungsfjölskyldan sé ekki naut.
Quinn segir að einhverjum í hópi starfsfólksins hafi líkað við Markle. Mörgum líkaði sú staðreynd að hún væri „mjög hrein og bein og málefnaleg“ eins og fyrrverandi meðlimur samskiptateymis Kensington Palace lýsti henni.
Eftir að hertogahjónin sögðu sig frá konunglegum skyldum og fluttu til Kaliforníu árið 2020 var Markle sökuð um að hafa lagt starfsfólkið í einelti, nokkuð sem hún hefur harðlega neitað.
Í bókinni kemur einnig fram að Vilhjálmi Bretaprins hafi fundist blíðuhót Markle afar óþægileg.
Sjá einnig: Vilhjálmi fannst óþægilegt að Meghan var alltaf að faðma hann