Vilmundur Möller Sigurðsson, rafeindavirkjameistari, segir að þúsundir Íslendinga séu líklega veikir án þess að vita það og hann bendir á vöru sem má finna á öllum heimilum, rúmdýnuna. Hann segir að plastið í rúmdýnum sé hættulegt en það megi finna slíkar dýnur á nánast öllum íslenskum heimilum.
Hann skrifaði um málið í pistli á Eyjunni sem má lesa í heild sinni hér.
Vilmundur segir að við vitum að rakaskemmt húsnæði hefur slæm áhrif á heilsu okkar og sama eigi með aðra loftmengun, eins og umferðarmengun og flugeldamengun.
„En hvað með plastefni? Gefa þau frá sér loftmengun? Svarið er já,“ segir Vilmundur.
„Plast er gert úr fjölda mengandi kemískra rokgjarnra efna sem þýðir að úr föstu efni losna nanoagnir stöðugt allan líftímann. Plast inniheldur Þalöt sem hafa slæm áhrif á heilsu. Góðar útskýringar um skaðsemi Þalata og hvernig þau eru notuð til að mýkja plast er að finna á vef Umhverfisstofnunnar.“
„Eftir því sem plastið er mýkra þá eru notuð fleiri rokgjörn kemísk efni sem þýðir meiri útgufun. Því er einmitt lýst á vef Umhverfisstofnunnar hvernig meira af skaðlegum Þalötum er notað eftir því sem plast er gert mýkra og þau komast inn í líkamann í gegnum húð og öndunarfæri. Þar er svo upptalning á því hvaða vörur ber að varast sem innihalda mikið af Þalötum,“ segir Vilmundur og bætir við að hann veltir fyrir sér af hverju rúmdýnan sé undanskilin í viðvörunum Umhverfisstofnunar Íslands.
Hann segir að rúmdýnan inniheldur mýksta plastið/svampinn og þar af leiðandi mest af þalötum.
„Sú vara sem við erum í nánustu snertingu við, í lengstan tíma, átta til sextán tíma á sólarhring, viðkvæmu meðvitundarlausu endurheimtarástandi,“ segir hann.
„Efsta lag í rúmdýnum er oftast með mjúku plasti eða þrýstijafnandi plasti sem inniheldur allt að 60 skaðleg útgufunarefni og er eitt það mýksta sem til er og kallast svampur og er í allt að 95% allra rúmdýna sem eru í notkun á Íslandi og í tugum þúsunda „heilsukodda,““ segir Vilmundur.
Síðastliðin sjö ár hefur Vilmundur skoðað áhrif skaðlegrar svampefna útgufunnar í svefnvöru á fólk og talað við þúsundir Íslendinga um áhrif þess á svefninn og líkamsstarfsemi.
„Það er alveg kristaltært í þessum samtölum og í tólf þúsund manna Facebook hópnum: „Er rúmið mitt að drepa mig!” að þúsundir Íslendinga hafa veikst, jafnvel alvarlega, af plastefnum í svefnvöru og náð aftur mun betri heilsu með því að skipta yfir í heilnæma ullarsvefnvöru,“ segir hann.
„Þúsundir Íslendinga eru líklega en veikir án þess að vita að ástæðan er svampefni í svefnvöru og ganga á milli ráðþrota lækna, um það eru til margar frásagnir.
Tugþúsundir Íslendinga eru líklega með krónísk vandamál sem má rekja til mengandi efna í svefnvöru, en erfitt er að greina það.
Best er að prófa að sofa í heilnæmri svefnvöru í nokkrar nætur og sjá hvort að manni líður betur á morgnana, minni stirðleiki, minni sviti í svefni, minni verkir og meiri orka yfir daginn.
Fólk finnur oftast mun á einungis nokkrum nóttum.“
Pistil Vilmundar má lesa í heild sinni hér.