Hegðun Kanye West hefur lengi vakið athygli og nú síðast á sunnudagskvöld þegar hann fékk eiginkonu sína til að mæta nánast kviknakin á Grammy-verðlaunahátíðina.
West var í viðtali við Justin Laboy í hlaðvarpsþættinum Download í vikunni þar sem hann fór yfir ýmis persónuleg mál. Segist hann til dæmis eiga Biöncu margt að þakka og hún hafi opnað augu hans fyrir því að hann glímdi ekki við geðhvarfasýki.
„Hún sagði: „Eitthvað varðandi persónuleika þinn lætur mig halda að þú sért ekki með geðhvörf. Ég hef séð einstakling með geðhvörf.“ Það kemur svo í ljós að það sem ég glími við er einhverfa,“ sagði hinn 47 ára gamli West sem hefur unnið til fjölmargra verðlauna á ferli sínum.
Árið 2018 greindi West frá því að hann hefði þjáðst af geðhvarfasýki en í viðtalinu við Justin heldur hann því fram að um ranga greiningu hafi verið að ræða. Bætir hann við að hann sé hættur að taka lyf gegn geðhvarfasýki og nú sé markmið hans að finna leið til að endurheimta sköpunarkraftinn sem hann er hvað þekktastur fyrir.
Í viðtalinu gengst West einnig við því að hegðun hans hafi reynst honum nánustu „erfið“ á köflum en einhverfugreiningin hafi sett ýmis uppátæki hans í gegnum tíðina í samhengi.