Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur krafið Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, um svör vegna meintra afskipta Ásthildar Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra, eða starfsmanns á hennar vegum, af kjaraviðræðum Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög.
Ásthildur Lóa hefur þegar neitað fyrir aðkomu sína að kjaradeildunni í viðtali við Mbl.is á þriðjudaginn.
Spurningar stjórnarandstöðunnar hafa verið send fjölmiðlum en undir sendinguna rita Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins og Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Er þar gefið í skyn að Ásthildur Lóa hafi ekki farið með rétt mál þegar
„Fregnir herma að hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra, eða starfsmaður á hans vegum, hafi boðið tveggja prósenta launahækkun til viðbótar við það sem þá var á borðinu. Þetta var kostnaður sem ríkissjóður átti að taka á sig til einhvers tíma í þeim tilgangi að liðka fyrir deilunni,“ segir í fyrirspurninni.
„Ráðherra hefur enga beina aðkomu að samningum sem þessum sem er alls ekki að ástæðulausu og er vart hægt að segja að þarna hafi verið að tryggja samstöðu á meðal aðila vinnumarkaðarins þegar boðin er launahækkun umfram aðra hópa.“
Þingflokksformennirnir þrír segja að miklir hagsmunir séu í húfi og því óski þeir eftir svörum sem fyrst frá forsætisráðherra. Ástæða þess að fyrirspurnin er borin upp með þessum hætti er vegna þess að óundirbúinn fyrirspurnatími sem var á dagskrá þingfundar í dag var felldur niður en til stóð að Kristrún og Ásthildur stæðu þar fyrir svörum.
Þá varpar þremenningarnir fimm spurningum fram í fyrirspurn sinni:
1. Er rétt að mennta- og barnamálaráðherra, eða starfsmaður á hans vegum, hafi boðið samningsaðilum, í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög, 2% hækkun ofan á það sem þegar lá fyrir? Ef ekki, var aðkoma ráðherrans með öðrum hætti en hér er tilgreind, og hver þá?
2. Er rétt að ráðuneytisstjórar í forsætis- og fjármálaráðuneyti, eða aðrir starfsmenn þeirra ráðuneyta, hafi mætt í húsakynni ríkissáttasemjara á þessum tíma, og ef svo er, í hvaða erindagjörðum?
3. Ef svo er, var það með vitund og samþykki forsætisráðherra og/eða fjármálaráðherra?
4. Ef rétt er, liggja fyrir fjárheimildir vegna þessa?
5. Ef rétt er, lítur forsætisráðherra svo á að eðlilegt sé að mennta- og barnamálaráðherra stigi inn í kjaradeiluna með þessum hætti? Lítur forsætisráðherra almennt svo á að afskipti ráðherra af kjaradeilum séu eðlileg?