Það er óhætt að segja að Piers Morgan hafi verið pirraður eftir tap Arsenal í enska deildabikarnum í gær.
Morgan er blóðheitur stuðningsmaður Arsenal og lætur sig mál félagsins mikið varða. Skytturnar töpuðu seinni leik sínum í undanúrslitum deildabikarsins gegn Newcastle í gær 2-0, samanlagt 4-0.
Morgan hefur mikið talað fyrir því að Arsenal eigi að sækja alvöru framherja, það þurfi til að vinna stóru titlana.
Það var hins vegar ekki gert í janúar og hefur Mikel Arteta, stjóri liðsins, sjálfur lýst yfir vonbrigðum með það.
„Arteta á þetta skilið. Hann þarf að hætta að koma með afsakanir og taka ábyrgð á því að enginn framherji hafi verið keyptur,“ sagði Morgan hins vegar á samfélagsmiðlum eftir leikinn í gær.
„Þessi ákvörðun þýðir að enn og aftur vinnum við ekki bikar á þessu tímabili,“ sagði hann enn fremur.