Undanfarna daga hefur verið í umferð listi með netföngum og nöfnum fólks sem er virkt inni á alræmdum vef sem þekktur fyrir að hefndarklám og nektarmyndir af stúlkum undir lögaldri. Aðilarnir sem standa að baki listanum eru ungmenni í svokölluðum tálbeituhópi en þau eru til rannsóknar hjá lögreglu vegna árásar á miðaldra karlmann á Akranesi sem taldi sig vera á leið til fundar við 14 ára stúlku eftir spjall þess efnis á Snapchat. Meðferðis til fundarins hafði maðurinn tvo smokka.
Hópurinn hefur stundað að ræða við karlmenn á Snapchat og kemur þar fram sem 14 ára stúlka. Það hindrar marga karlmenn ekki í því að klæmast við þennan viðmælanda.
Hópurinn hefur einnig afhjúpað virkni stórs hóps manna áðurnefndum vef eins og áður segir. Ennfremur hefur DV undir höndum lista yfir 2-300 netföng manna sem hafa brugðist við tilkynningu inni á síðunni þar sem boðið er upp á að horfa á barnaníðsefni og óskað eftir aðgangi. Eftir að viðkomandi hefur skáð sig fyrir barnaníðsefninu grípur hann hins vegar í tómt því ekkert slíkt er í boði. Er um gildru að ræða.
Í Nútímanum á þriðjudag birtist frétt þess efnis að einhverjir mannanna á listanum hafi orðið fyrir fjárkúgun. Einnig voru leiddar líkur að því að mögulega væru saklausir menn ranglega bendlaðir við síðuna.
DV ræddi við ungan pilt sem er í þessum tálbeituhóp og bar þessar áhyggjur undir hann.
„Það er ekki hægt að skrá sig þarna inn á netfangi annarra. Google hefur varnir sem koma í veg fyrir það. Öll netföngin eru raunverulega netföng þeirra manna sem þarna eru á listanum. Áður en við gerðum listann þá flettum við nöfnunum upp í þjóðskrá til að vera viss um að þetta væru ekki einhver bullnöfn,“ segir ungi maðurinn.
Hann segir að meðal notenda séu einhverjir dæmdir kynferðisbrotamenn, enn fremur sé þar stjórnandi í fyrirtæki, barþjónn og blaðamaður. Við lauslega athugun fann DV ekki landsþekkt nöfn á listunum.
Nokkuð er um sömu nöfnin á netfangalistanum yfir þá sem sækja um aðgang að sýningu barnaníðsefnis og á listanum yfir virka notendur inni á síðunni. Ungi maðurinn í tálbeituhópnum bendir á að í báðum tilvikum séu menn að gera eitthvað sem þeir vita að sé ólöglegt og fyrir því sé engin afsökun.
„Þú veist hvað þú ert að gera, þú veist að þú ert að fara að horfa á ólöglegt efni ef þú skráir þig fyrir þessu,“ segir hann.
Aðspurður um fjárkúgunartilburði segir hann. „Það hefur enginn í þessum hópi reynt að fjárkúga enda höfum við engan áhuga á því. En kannski hafa einhverjir sem hafa séð listann reynt að fjárkúga menn á honum.“