Í síðustu viku var hann fundinn sekur um að hafa, í samvinnu við unnustu sína, Gemma Watts, myrt hina 38 ára Sarah Mayhew og fyrir að hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar.
Sansom mun eyða því sem hann á eftir ólifað bak við lás og slá því dómarinn kvað upp úr um að hann muni aldrei geta fengið reynslulausn.
Watts var dæmd í ævilangt fangelsi en getur sótt um reynslulausn eftir 30 ár. Ef hún fær reynslulausn, mun hún verða undir eftirliti til æviloka. Sky News skýrir frá þessu.
Mayhew fannst látin í Rowdon Fields í suðurhluta Lundúna í byrjun apríl á síðasta ári. Síðast sást til ferða hennar skömmu áður en hún fór að hitta Sansom, sem hún hafði komist í kynni við í gegnum stefnumótaapp, í íbúð hans í Sutton í byrjun mars.
Í dómsorði sagði dómarinn að Sansom hafi haft í hyggju að myrða hana og að Watts, sem var heltekin af honum, hafi ákveðið að taka þátt í morðinu. Dómarinn sagði einnig að Mayhew hafi líklega fyllst skelfingu og þjáðst mikið þegar hún áttaði sig á að ætlunin var að myrða hana. Hún hafi verið saklaus kona sem var lokkuð í íbúðina til að deyja til að Sansom og Watts gætu látið hræðilega drauma sína rætast og svalað blóðþorsta sínum.