Það er afar mikilvægt að málefni gervi-stéttarfélagsins Virðingar gleymist ekki enda er þetta framferði Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði ekki „bara“ aðför að þeim sem starfa á veitingamarkaði heldur öllum íslenskum vinnumarkaði. Það er nefnilega með öllu óverjandi og ótækt að atvinnurekendur stofni stéttarfélag til þess eins að gjaldfella kjör og réttindi launafólks. Þessi aðför gegn réttindum verkafólks grefur undan þeim samningum og sátt sem vinnumarkaðurinn hefur byggt á um áratugaskeið.
Gervistéttarfélagið „Virðing“, sem atvinnurekendur á veitingamarkaði hafa stofnað, hefur nú ekki bara látið til sín taka í Reykjavík heldur einnig á Akureyri, einu af starfsmannasvæðum Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Þetta er ekki annað en skýr aðför að kjarabaráttu og réttindum verkafólks sem vinnur í veitingageiranum.
Ég sem formaður Starfsgreinasambands Íslands tek heilshugar undir gagnrýni Eflingar á „Virðingu“ sem reynist vera skýrt dæmi um gervistéttarfélag sem virðist vera stofnað af atvinnurekendum til að taka niður kjarasamningsbundin réttindi þeirra sem starfa á veitingamarkaði.
Það er rétt að geta þess að fyrir nokkrum misserum óskuðu Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) eftir fundi með SGS. Á fundinum var ljóst að SVEIT vildi semja niður kjör og réttindi í veitingageiranum. SGS hafnaði alfarið slíkum hugmyndum og benti SVEIT á að hafa samband við og vera í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA), en það væru viðsemjendur okkar.
En SVEIT gáfust ekki upp við að finna leið til að taka niður kjör starfsfólks eftir að SGS hafnaði að gera kjarasamning sem byggðist á að lækka laun þeirra sem starfa í greininni. Nei, þau stofnuðu einfaldlega eigið „stéttarfélag“ þar sem þau gjaldfelldu laun og réttindi starfsfólksins í gegnum þetta gervistéttarfélag.
Forsvarsmenn SVEIT og lögmaður þeirra hafa haldið því fram að umrætt stéttarfélag sé löglegt og sé stofnað af „venjulegu“ starfsfólki innan veitingageirans. Hvernig dettur þeim til hugar að starfsfólk á veitingamarkaði stofni stéttarfélag til þess eins að taka niður kjör sín eins og enginn sé morgundagurinn? Hversu trúverðugur er svona málflutningur?
Að atvinnurekendur stofni eigið gervistéttarfélag til að lækka laun og skerða réttindi launafólks er fordæmalaust í íslenskri vinnumarkaðssögu.
Hér er um að ræða eina mestu aðför gegn kjarabaráttu launafólks um áratugaskeið. Þetta geta hvorki verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, stjórnvöld, né íslenskt þjóðfélag horft á aðgerðalaust.
„Samningurinn“ sem „Virðing“ hefur gert við SVEIT skerðir réttindi verulega:
Halda forsvarsmenn SVEIT og lögmaður þeirra virkilega að til sé starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði sem stofni stéttarfélag til að skerða öll þessi réttindi? Að reyna að slá ryki í augu almennings og halda slíku fram er ekkert annað en siðferðislegt gjaldþrot.
Það hefur verið reiknað út af aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar að þessi samningur hjá þessu gervistéttarfélagi taki laun niður um yfir 10% miðað við það ef viðkomandi fengi greitt eftir kjarasamningi SGS og Eflingar við SA.
SGS mun ekki horfa aðgerðalaust á. SVEIT verður að virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og starfa innan þeirra ramma sem settir hafa verið til verndar launafólki. Þetta gervistéttarfélag virðist brjóta gegn ákvæðum laga og grundvallarréttinda launafólks.
Framferði þeirra fyrirtækja sem ætla að nýta sér þetta gervistéttarfélag kallar á að verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins þurfa að kalla eftir enn skýrari lagasetningu sem ver verkafólk fyrir svona aðför að lágmarkskjörum og réttindum sem aðilar hafa samið um sín á milli. Því er einsýnt að mínu áliti að aðilar vinnumarkaðarins taki þetta samtal við stjórnvöld til að verja þá sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði.
Mikilvægt er að muna að langflestir atvinnurekendur vilja sínu starfsfólki vel og koma fram við það af virðingu. Hins vegar er ekki úr háum söðli að detta þegar rætt er um lægstu laun á Íslandi. Það er óviðunandi með öllu að forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði beiti brögðum til að grafa undan kjörum þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Þess vegna verða verkalýðshreyfingin, stjórnvöld og samfélagið í heild sinni að bregðast skjótt við og stöðva þessa óásættanlegu aðför að réttindum launafólks. Það verður og þarf að koma fram við þau sem starfa á „gólfinu“ og skapa hin raunverulegu verðmæti af virðingu en ekki vanvirðingu, eins og forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði gera með því að standa sjálfir að stofnun gervistéttarfélags – allt til þess eins að taka grimmilega niður kjör þeirra sem starfa í greininni.
Svona gera menn ekki. Það er algjörlega óásættanlegt að atvinnurekendur beiti slíkum brögðum til að grafa undan réttindum starfsfólks síns. Verkalýðshreyfingin og stjórnvöld verða að bregðast skjótt við og koma í veg fyrir að launafólk verði fórnarlömb siðlausra aðgerða sem miða að því að draga úr kjörum þeirra. Það er einmitt í svona aðstæðum sem samstaða skiptir öllu máli – saman stöndum við vörð um sanngjörn og réttlát vinnuskilyrði fyrir alla. Samstaða, barátta og lögbundnar verndarráðstafanir eru nauðsynlegar til að stöðva þessa ósvífnu atlögu að kjörum og lífsgæðum þeirra sem vinna hörðum höndum við að halda samfélaginu gangandi. Stéttarfélög, stjórnvöld og samfélagið í heild sinni verða að bregðast við og sýna að slík vinnubrögð verða ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði.