Rannsóknin sýndi fram á að fallegt fólk fær hærri laun en fólk sem telst ekki eins aðlaðandi.
Rannsóknin hefur verið birt í Information Systems Research Study. Í henni kemur fram að fólk, sem þykir fallegt, fær að meðaltali 2,4% hærri laun en það fólk sem þykir síður myndarlegt.
Fyrir þau 10%, sem þykja allra myndarlegustu, er ávinningurinn enn meiri því þessi hópur fær rúmlega 11% hærri laun en meðallaunin eru.
„Rannsóknin sýnir að útlitið hefur ekki bara áhrif á upphaf starfsferilsins, heldur einnig hvernig hann þróast áratugum saman. Þessar niðurstöður afhjúpa viðvarandi og styrkjandi áhrif fegurðar í tengslum við atvinnu fólks,“ sagði Nikhil Malik, aðalhöfundur rannsóknarinnar, í fréttatilkynningu.
Rannsóknin sýndi einnig fram á að fallegt fólk er 52,4% líklegra til að fá góða og eftirsótta vinnu þegar það lýkur námi.
Rannsóknin byggist á gögnum um 43.000 MBA-nemendur. Með aðstoð gervigreindar var mat lagt á fegurð fólksins og var notast við myndir frá fyrstu 15 árunum eftir að fólkið lauk námi.
En þessi fegurðaráhrif gagnast misvel eftir atvinnugreinum. Rannsóknin leiddi í ljós að útlitið skiptir meira máli þegar kemur að húmanískum stöðum sem og stjórnunarstöðum. En í tæknigreinum á borð við tölvugeirann og í verkfræði skiptir það ekki eins miklu máli.