Thomas Tuchel, nýr landsliðsþjálfari Englands, skoðar það að fara að taka Myles Lewis-Skelly inn í leikmannahóp sinn samkvæmt The Times.
Lewis-Skelly, sem er aðeins 18 ára gamall, hefur heldur betur sprungið út í vinstri bakverðinum hjá Arsenal á leiktíðinni. Skoraði hann til að mynda um helgina í 5-1 sigri liðsins á Manchester City.
Hefur vinstri bakvarðastaðan einmitt verið til vandræða í enska landsliðinu undanfarið og eðlilega horfa Tuchel og hans teymi hjá enska landsliðinu á Lewis-Skelly.
Tuchel er þó sagður hikandi með að taka kappann inn vegna aldurs hans og skort á reynslu. Hann hefur ekki enn spilað fyrir U-21 árs landsliðið. Þó kemur fram að verið sé að fylgjast mjög náið með honum.
Það er því ekki útilokað að Lewis-Skelly verði í enska hópnum sem mætir Albaníu og Lettlandi í mars.