Körfuboltaþjálfarinn umdeildi, Brynjar Karl Sigurðsson, bregst harkalega við ályktum Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) frá því í gær þar sem þjálfarar eru hvattir til að gæta að málfari og hegðun sinni og beita sér gegn ofbeldi.
Tilefnið eru umræður um framgöngu Brynjars, sem þjálfar lið Aþenu í kvennaflokki, en harkalegar þjálfunaraðferðir hans hafa vakið athygli, umræðu og deilur. Leikmenn kvennaliðs Aþenu hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þær hafna því með öllu að Brynjar beiti þær andlegu ofbeldi eins og hann er sakaður um. Í kjölfar þeirrar tilkynningar birtist ályktun ÍSÍ þar sem segir meðal annars:
„Samkvæmt hegðunarviðmiðum ÍSÍ er áhersla lögð á að þjálfarar gæti að málfari sínu og hegðun, nýti stöðu sína á uppbyggilegan hátt og beiti sér gegn öllu ofbeldi. Því lítur framkvæmdastjórn atvik þar sem þjálfari öskrar, slær til iðkenda og/eða niðurlægir með orðum alvarlegum augum og ítrekar að slík misbeiting á valdi á ekki heima í okkar hreyfingu.“
Brynjar hefur nú svarað þessari ályktun ÍSÍ með löngum Facebook-pistli. Þar segir hann ÍSÍ vernda yfirstétt og stimpla fólk ofbeldisfullt án nokkurra sannana. Sakar hann formann sambandsins, Lárus Blöndal, um að bregðast iðkendum hjá Aþenu og foreldrum þeirra:
„Ég er hissa að þetta útspil ÍSÍ hafi ekki komið fyrr. Enn og aftur um leið og kúltúrinn sem stelpur og konur í boltaíþróttum búa við er gagnrýndur birtist yfirlýsing frá ÍSÍ. Afstaða ÍSÍ virðist fyrst og fremst snúast um að vernda „yfirstétt“ – þá sem ættu þó að gæta hagsmuna og öryggis iðkenda. Þegar ÍSÍ talar um að stemma stigu við einelti, tryggja öryggi og tryggja valdastöðu á milli aðila á uppbyggilegan hátt, hríslast um mig ónotatilfinning, því reynsla mín er allt önnur.
Síðustu ár hefur ÍSÍ staðið fyrir grófri valdníðslu og oft sýnt algjört andvaraleysi gagnvart mikilvægustu hagsmunaaðilanum í hreyfingunni, sjálfum iðkendunum. Fólk er stimplað sem ofbeldisfullt án nokkurra sannanna. ÍSÍ rannsakar hvorki ásakanir né gefur fólki tækifæri til að hreinsa sig af sök. Yfirlýsingar um að ÍSÍ vilji mæta á æfingar eða ræða beint við fólk eru aldrei efndar – í staðinn tekur ÍSÍ þátt í níði.
Það sem fer mest fyrir brjóstið á mér er hvernig ÍSÍ og Lárus Blöndal bregðast foreldrum og iðkendum Aþenu, og reyna hvað eftir annað að rýra bæði heiður þeirra og baráttu. Þau sem ættu að vera vernduð undir væng ÍSÍ standa eftir ráðalaus og svikin. Þetta mun ég ekki láta átölulaust.“
Brynjar segist í næsta viðtali ætla að fara yfir nokkur atriði í framgöngu ÍSÍ, meðal annars andvara- og áhugaleysi sambandsins gagnvart menningu kynferðislegrar áreitni sem viðgengist hafi innan körfuboltaheimsins. Einnig sakar hann ÍSÍ um að hafa reynt að tefja fyrir stofnun Aþenu og hafa flutt óhróður og lygar um félagið. Brynjar fer mjög hörðum orðum um Lárus Blöndal og segir hann ítrekað breiða út lygar og óhróður um starf Aþenu:
„Tafir á stofnun Aþenu – ÍSÍ reyndi að stöðva stofnun Aþenu í tæp tvö ár með lygum og þvættingi. Félagið var loks samþykkt til að starfa sömu viku og fulltrúar þess stigu fram í fjölmiðlum, í kjölfar frumsýningar Hækkum Rána.
Fordæming án rökstuðnings – Opinber gagnrýni ÍSÍ á aðferðir mínar í Hækkum Rána var óstudd rökum. Lárus mætti með blóm handa formanni KKÍ á ársþing sem var með allt niðrum sig í METOO-málum, steig svo í pontu og kallaði eftir því að „stoppa“ mig – án þess að hafa nokkru sinni kynnt sér starf mitt eða hitt iðkendurna.
Afstaða til METOO-ásakana – Á sama tíma og grófar METOO-ásakanir stóðu yfir hjá KKÍ, kaus ÍSÍ að líta framhjá þeim, en beindi orku sinni gegn Aþenu sem barðist af krafti gegn þeirri menningu.
Lygar og óhróður um Aþenu – Fulltrúum frá Team Denmark var meðal annars ráðlagt að forðast að heimsækja Aþenu síðastliðið haust, sem er enn eitt dæmið um ófrægingu og hindranir sem að starfsfólk ÍSÍ hefur sett upp.
Fundur með Lárusi – Ég óskaði eftir fundi með Lárusi 3. mars 2022 til að ræða öll þessi mál. Hann sýndi mér kurteisi í eigin persónu og baðst afsökunar, en lét það þó ekki koma fram opinberlega. Ef ÍSÍ neitar þessu, þarf að endurtaka þennan fund opinberlega.
Nú hefur ÍSÍ haldið áfram og boðið sjálfa sig fram sem einhvers konar „dómara“ í eigin eineltismáli gegn okkur. Það sem gerir þetta enn átakanlegra er að ÍSÍ birti yfirlýsingu um meinta ofbeldismenningu hjá okkur nánast um leið og Aþenu-konur gáfu út yfirlýsingu þess efnis að þær verði ekki fyrir ofbeldi. Sú vanvirðing er með ólíkindum.
Hafa ber í huga hversu mikinn skaða svona óábyrg umræða getur valdið. Ég er handviss um að fílabeinsturninn í Laugardalnum hefur ekki veitt því athygli hversu mikil uppbygging á sér stað í 111 Reykjavík. Hins vegar kemur þetta fram hjá ÍSÍ sem skortur á virðingu, skilningi og, að mínu mati, ábyrgð.
Það að Lárus og félagar taki svo aftur upp sömu gamlar sögusagnir og beiti einelti gegn okkur nú, jafnvel eftir að iðkendur Aþenu hafa tjáð sig skýrt, er óskiljanlegt. Á sama tíma situr ÍSÍ uppi í eigin óreiðu – sem væri vafalaust hægt að kafa dýpra í.
Ég mun áfram krefjast þess að ÍSÍ hætti að setja sig í dómarasæti í eigin eineltismáli, setjist við sama borð og iðkendur Aþenu og láti af þessu stanslausa níði. Endanlega þarf að hreinsa borðið: Taka á málinu af heilindum, biðjast afsökunar eða stíga til hliðar. Svo einfalt er það.“