Leikararnir Justin Baldoni og Blake Lively eiga nú í harðvígum deilum fyrir dómstólum þar sem þau freista þess, hvort fyrir sig, að bjarga mannorði sínu. Hér er um hreint ævintýralegar deilur að ræða og hafa ásakanirnar gengið á víxl.
Málið má rekja til kvikmyndarinnar It Ends With Us sem byggir á samnefndri bók. Baldoni leikstýrði myndinni og tók einnig að sér eitt aðalhlutverkið á móti Blake Lively. Ýmsilegt gekk á við tökur myndarinnar. Lively heldur því fram að Baldoni hafi áreitt hana kynferðislega. Til að koma í veg fyrir að upp um hann kæmist hafi Baldoni svo ráðist í frægingarherferð þegar myndin kom í kvikmyndahús. Þannig hafi hann ætlað sér að bjarga eigin mannorði á kostnað orðspors Lively í Hollywood. Lively hefur stefnt Baldoni og fer fram á skaðabætur.
Baldoni segist hafður fyrir rangri sök. Lively hafi fengið að finna fyrir því í fjölmiðlum og í opinberri umræðu eftir að myndin kom út. Nú freisti hún þess að endurskrifa söguna og koma sökinni yfir á Baldoni. Leikstjórinn hafi ekki áreitt hana með nokkrum hætti en leikkonan hafi hins vegar mætt á tökustað og reynt að taka yfir tökur og framleiðslu myndarinnar. Baldoni hefur svarað kæru leikkonunnar með sinni eigin kæru gegn Lively og eiginmanni hennar, Ryan Reynolds, þar sem hann heimtar einnig skaðabætur.
Fyrirtaka var í máli Baldoni á mánudaginn og þar sagði lögmaður hans að málið hefði haft miklar afleiðingar á líf leikarans. Hann væri miður sín bæði tilfinningalega sem og fjárhagslega. Baldoni hafi verið slaufað út af ásökunum Lively. Honum hafi verið útskúfað úr samfélaginu og orðið fyrir ómældu tjóni. Hann hafi verið rekinn úr þremur verkefnum og nemi tjónið hundruð milljónum Bandaríkjadala.
Baldoni hefur undanfarnar vikur lekið gögnum í fjölmiðla. Hann hefur eins sett í loftið sérstaka heimasíðu þar sem hann lofar því að birta öll helstu gögn málsins. Fyrir vikið fékk hann skammir frá dómara í málinu. Dómarinn Lewis J. Liman ákvað að aðalmeðferð færi fram á næsta ári en tók sérstaklega fram að það sé mögulegt að flýta ferlinu en bara ef lögmenn leikaranna halda sig á mottunni og hætti að gefa frá sér eldfimar yfirlýsingar á opinberum vettvangi. Dómarinn rakti að slíkar yfirlýsingar séu til þess fallnar að lita afstöðu þeirra einstaklinga sem koma til með að vera útnefndir í kviðdóm málsins.
Lögmaður Lively tók undir með dómara: „Það á að ljúka þessu máli hér fyrir dómi en ekki í fjölmiðlum.“