Steve var einn ástsælasti sjónvarpsmaður Ástrala og vöktu þættir hans, The Crocodile Hunter, mikla athygli en þeir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Animal Planet. Hann lést í september 2006, aðeins 44 ára að aldri, eftir hann var stunginn í brjóstið af stingskötu í köfunarferð. Á þeim tíma voru börn hans, Bindi og Robert, aðeins átta og tveggja ára.
Bindi var gestur Söruh Grynberg í hlaðvarpsþættinum A Life of Greatness á dögunum þar sem hún lýsti fjölskyldulífinu. Í þættinum sagði Bindi að faðir hennar hefði þjáðst af gríðarlega miklu svefnleysi lengi vel áður en hann lést.
„Hann bókstaflega svaf aldrei,“ segir hún og bætir við að faðir hennar hafi vaknað eiginlega alla daga klukkan tvö um nótt. „Dagurinn hans byrjaði klukkan tvö og þegar vinnudagurinn hjá öðrum byrjaði var hann búinn með heilan vinnudag.“
Hún segir að hann hafi verið að vinna að allskonar dýralífsrannsóknum og hann hafi skrifað þúsundir blaðsíðna um niðurstöður sínar. Þessi skrif hans fundust nýlega þegar fjölskyldan var að fara í gegnum eigur hans ekki alls fyrir löngu.
Þó að Irwin hefði ekki verið formlega menntaður í náttúruvísindum var hann mikill áhugamaður um dýr og þekkti krókódíla betur en flestir.
„Fólk sá hann í sjónvarpinu sem þennan brjálæðislega ástríðufulla áhugamann um dýr en ég vildi að fólk hefði líka getað skyggnst inn í vísindalegu hliðina á honum.“
Eðlilega var það henni, átta ára stúlkunni, mikið áfall þegar faðir hennar lést og rifjar hún upp að henni hafi verið sagt að „tíminn lækni öll sár“.
„Ég hugsaði hvern fjárann það þýddi? Mun ég gleyma honum einn daginn? Þetta gerði mig smá hrædda og ég mæli með því að fólk segi þetta ekki við átta ára börn. Tíminn breytir sorginni, breytir því hvaða augum þú lítur á hana,“ segir hún.